Frábær dagskrá á Rykkrokk

Menning og listir

""

Nú liggur fyrir hvaða hljómsveitir spila á Rykkrokk í Fellagörðum laugardaginn 3. ágúst. Óhætt er að fullyrða að allir fái eitthvað við sitt hæfi. Böndin sem spila eru Tanya og Marlon, Samaris, Prins Póló, Grísalappalísa og síðast en ekki síst Langi Seli og Skuggarnir. 

Rykkrokkið er sérstakt „off venue“ á Innipúkanum í ár, en viðburðurinn er unninn í samvinnu við Þjónustumiðstöð Breiðholts og Fellagarðshópinn sem hélt til í Hjartagarðinum síðasta sumar. Borgarráð samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að styðja við tónleikana með fjárframlagi. Rykkrokk var síðast haldið 1995 og er dagskráin klæðskerasniðin nútímanum með nostalgíu ívafi. Innipúkar úr öllum hverfum Reykjavíkur hvattir til að koma upp í Fellagarða.

Það er því ljóst að fjölbreytni og fjör verða í fyrirrúmi - Breiðholtið er staðurinn fyrir þá sem vilja hlusta á góða tónlist í skemmtilegu umhverfi án þess að þurfa að greiða aðgangseyri en ekkert kostar á tónleikana sem hefjast kl. 16.00. Viðburðinum er ætlað að efla félagsauð og menningarlíf í Breiðholti.

Þeir sem hyggjast mæta á viðburðinn eru hvattir til að labba eða nýta sér almenningssamgöngur. Þeir sem mæta á bílum er bent á að næg bílastæði eru í Austurbergi og víðar í kring.