Frábær árangur í flokkun

Sorphirða

Ný tunna

Árangurinn af nýja flokkunarkerfinu við sorphirðu er þegar orðinn góður. Magnið í gráu tunnunni undir blandaðan úrgang hefur minnkað um 35% milli októbermánaðar 2022 og sama mánaðar 2023.

Íbúum að þakka

Þessi frábæri árangur er íbúum að þakka en með því að flokka heimilissorp nýtast betur þau verðmæti sem eru falin í ruslinu og neikvæð áhrif á umhverfi og loftslagið minnka.

Matarleifar sem áður voru urðaðar fara nú í Gaju, gas- og jarðgerðarstöð sem breytir þeim í moltu og metangas. Gasið er síðan nýtt á bíla í borginni en nefna má að allir sorphirðubílar Reykjavíkur knúnir áfram með metani.

Plastið tvöfaldast í flokkun

Aldrei hefur jafn mikið plast verið flokkað í heimilishirðu í Reykjavík. Magn plasts meira en tvöfaldaðist í október á milli ára. Þessi árangur hefur náðst á aðeins fimm mánuðum. Ein af skýringunum á auknu magni plasts í tunnum hjá Sorphirðu Reykjavíkur er að úrvali af ílátum undir plast hjá öðrum sorphirðufyrirtækjum fækkaði. 

Nýtnivikan

Nú stendur evrópska nýtnivikan en markmið hennar er að fá okkur öll til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og minnka þannig úr myndun úrgangs. Þema ársins er umbúðir undir slagorðinu Höfum það umbúðalaust! Almennt er mikilvægast að draga úr magni úrgangs, forðast óþarfa og draga úr umbúðum eins og hægt er.

Takk fyrir að flokka!