Forvarnardagurinn 2023

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti Rimaskóla í morgun í tilefni Forvarnardagsins sem nú er haldinn í 18. sinn. Borgarstjóri hitti nemendur í 9. bekk sem eru að vinna verkefni í skólanum í tengslum við forvarnir.
Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti þar sem sjónum er sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla.Yfirskrift Forvarnardagsins í ár er Hugum að vellíðan og verndandi þáttum í lífi barna og ungmenna. Skólar skrá sig til þátttöku og fá aðgang að verkefnum í glæruformi þar sem kennarar fara yfir verndandi þætti og hvað hægt er að gera til að auka vellíðan.

Dagur ræddi við nemendur um hvað þeim fyndist um forvarnir og ræddi meðal annars um samveru með fjölskyldunni, svefnvenjur og hvort þau vildu mæta seinna í skólann og margt fleira. Krakkarnir voru með ákveðnar skoðanir og viðruðu sínar hugmyndir sem þau voru að vinna með í skólaverkefninu.
Nemendum býðst að taka þátt í leik sem verður á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is þar sem þau vinna með efni í tengslum við Forvarnardaginn. Verðlaun verða afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.
Nálgast má streymi af fundinum á vef Forvarnardagsins.
Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta og Heimili og skóli.