Forvarnardagurinn 2023

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jónína Ómarsdóttir kennari í Rimaskóla á spjalli við nemendur
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jónína Ómarsdóttir kennari í Rimaskóla á spjalli við nemendur.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti Rimaskóla í morgun í tilefni Forvarnardagsins sem nú er haldinn í 18. sinn. Borgarstjóri hitti nemendur í 9. bekk sem eru að vinna verkefni í skólanum í tengslum við forvarnir.

Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti þar sem sjónum er sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla.Yfirskrift Forvarnardagsins í ár er Hugum að vellíðan og verndandi þáttum í lífi barna og ungmenna. Skólar skrá sig til þátttöku og fá aðgang að verkefnum í glæruformi þar sem kennarar fara yfir verndandi þætti og hvað hægt er að gera til að auka vellíðan.

Dagur ræddi við nemendur í Rimaskóla um mikilvægi forvarnar í tilefni Forvarnardagsins.

Dagur ræddi við nemendur um hvað þeim fyndist um forvarnir og ræddi meðal annars um samveru með fjölskyldunni, svefnvenjur og hvort þau vildu mæta seinna í skólann og margt fleira. Krakkarnir voru með ákveðnar skoðanir og viðruðu sínar hugmyndir sem þau voru að vinna með í skólaverkefninu.

Nemendum býðst að taka þátt í leik sem verður á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is þar sem þau vinna með efni í tengslum við Forvarnardaginn. Verðlaun verða afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.

Nálgast má streymi af fundinum á vef Forvarnardagsins.

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta og Heimili og skóli.