Forsetinn heimsótti Fellaskóla og kynnti forvarnir

Velferð Skóli og frístund

""

Guðni forseti, Dagur borgarstjóri, Alma landlæknir og fulltrúar samtaka og stofnana sem standa að Forvarnardeginum heimsóttu Fellaskóla í morgun og kynntu þær áherslur sem nú eru lagðar í forvörnum meðal unglinga í 9. bekk. Forvarnardagurinn verður haldinn miðvikudaginn 2. október. 

Á kynningarfundi í Fellaskóla kom fram að á þessu ári verður lögð áhersla á að fræða börn og unglinga um skaðsemi rafrettna en notkun þeirra hefur færst í vöxt meðal íslenskra ungmenna á allra síðustu árum. Nýleg könnun sýnir að 9,5% nemenda í 9. bekk hafa notað rafrettu 20 sinnum eða oftar og hlutfallið er nær 18% í 10. bekk.

Annað sem fræðast má um á Forvarnardeginum nú er nauðsyn góðra svefnvenja og skaðsemi orkudrykkja. Könnun frá Rannsóknum og greiningu sýnir að 42% ungmenna í 9. bekk og 54% ungmenna í 10. bekk fá ekki nægan svefn. Einnig sýna kannanir að sprenging hefur orðið í neyslu orkudrykkja meðal nemenda í efstu bekkjum grnnskólanna og neytti um þriðjungur þeirra orkudrykkja daglega á síðasta ári. 

Fulltrúar 9. og 10. bekkja í Fellaskóla tóku á móti forseta Íslands, borgarstjóra og fleirum í morgun og spjölluðu við gesti um leiðir í forvörnum þar sem öllum bar saman um að þar skiptu góð samskipti við foreldra og fjölskyldu öllu máli. 

Embætti landlæknis stendur að Forvarnardeginum í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátana, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samstarf félagasamtaka í forvörnum. 

Á Forvarnardegi geta skólar sýnt myndband sem gert er árlega til að kveikja umræður meðal nemenda í 9. bekk en í ár gefst nemendum sem fæddir eru á árunum 2003-2005 einnig kostur á því að taka þátt í stuttmyndasamkeppni þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun. Skilafrestur í keppninni rennur út að kvöldi 11. nóvember og verða verðlaun veitt af forseta Íslands á Bessastöðum fyrir þrjár myndir; þá bestu, þá skemmtilegustu og þá frumlegustu.