Forgangsröðun liggur fyrir í viðhaldsátaki skólahúsnæðis

Framkvæmdir Skóli og frístund

Verkefnum er forgangsraðað með það markmið að tryggja á hverjum tíma öruggt og heilsusamlegt húsnæði fyrir notendur og starfsfólk. Mynd/Róbert Reynisson
Skólakrakkar að ganga í skólann með skólatöskur á bakinu.

Gert er ráð fyrir viðhaldi fyrir um 4,4 milljarða króna á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar Reykjavíkurborgar á þessu ári. Þetta er hluti af 30 milljarða  viðhaldsátaki í húsnæði skóla- og frístundasviðs á árinum 2022-2026. Forgangsröðun á viðhaldsframkvæmdunum liggur nú fyrir en skipt hefur verið niður í fimm forgangsflokka sem hægt er að skoða eftir hverfum.

Til grundvallar við forgangsröðun liggur ástandsskoðun sem fram fór árin 2020–2021 og kynnt var í borgarráði 4. nóvember 2021. Áætlunin verður endurskoðuð eftir þörfum.

Tryggir öruggt og heilsusamlegt húsnæði

Verkefnum er forgangsraðað með það markmið að tryggja á hverjum tíma öruggt og heilsusamlegt húsnæði fyrir notendur og starfsfólk. Grænar lausnir eru hafðar að leiðarljósi eins og við efnisval og vegna orkusparandi aðgerða. Áætlunin tekur einnig tillit til áforma um viðbyggingar og húsnæðisbreytingar tengdum viðbyggingum til að tryggja skynsamlega nýtingu fjármuna.

Meðal þeirra þátta sem forgangsröðun byggir á eru:

  • Að tryggja öryggi notenda
  • Að tryggja heilnæmt umhverfi
  • Að bæta aðgengi fyrir alla
  • Að fyrirbyggja skemmdir mannvirkja
  • Hagkvæm nýting fjármuna

113 eignir á forgangslistanum

Húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar í eigu Reykjavíkurborgar er alls rúmlega 265 þúsund fermetrar að stærð í 136 eignum. Veginn meðalaldur eignanna er um 46 ár, mishár eftir hverfum borgarinnar. Í þeirri áætlun sem nú liggur fyrir hefur eignum verið skipt upp í fimm forgangsflokka. Alls eru 113 eignir taldar upp í forgangslistanum sem framkvæmt verður eftir til 2028. Samhliða viðhaldsátakinu verður almennu og tilfallandi viðhaldi sinnt. Einnig verða gagngerar endurbætur eða viðbyggingar unnar samhliða átakinu.

Borgarráð hefur nú heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út ýmsar framkvæmdir ársins vegna viðhaldsverkefnanna á þessu ári. Eins og áður segir verður alls framkvæmt vegna um 30 milljarða króna vegna þessa viðhaldsátaks í skólamálum, þar af var framkvæmt fyrir 4,1 milljarð króna í fyrra og áætlun ársins 2023 hljóðar upp á 4,4 milljarða króna viðhaldsframkvæmdir.

Áætlunin er unnin í samstarfi skóla- og frístundasviðs, eignaskrifstofu og skrifstofu framkvæmda og viðhalds. Verkefnastýring vegna áætlunargerðar er á höndum verkefnastofu umhverfis- og skipulagssviðs.

Við forgangsröðun framkvæmda er haft samráð við stjórnendur og fulltrúa notenda og reynt að finna leiðir til að lágmarka rask meðan á framkvæmdum stendur.