Félagsmiðstöðvadagurinn var haldinn hátíðlegur í félagsmiðstöðvum víða um borgina í vikunni. Foreldrar, börn og unglingar kíktu í heimsókn til að kynna sér starfsemina og það spennandi starf sem þar fer fram.
Notuðu tækifærið og héldu upp á 30 ára afmæli
Dagskráin var jafn fjölbreytt og félagsmiðstöðvarnar eru margar og eins og í félagsmiðstöðvastarfinu að þá var gleðin í hávegum höfð. Félagsmiðstöðin Hólmasel notaði tækifærið og hélt uppá 30 ára afmæli á félagsmiðstöðvadaginn og bauð til allsherjar veislu. Félagsmiðstöðvarnar Frosti og Þróttheimar voru með spurningakeppni milli fjölskyldna, Gleðibankinn var með leiki og spurningakeppni, Tónabær var með vöfflukaffi og leiki svo einhver dæmi séu tekin og allar félagsmiðstöðvarnar buðu upp á veitingar í tilefni dagsins.
Skóla- og frístundasvið þakkar öllum þeim fjölmörgu foreldrum og forráðamönnum sem komu í heimsókn á félagsmiðstöðvadaginn og gáfu sér tíma til þess að kynna sér og taka þátt í því frábæra starfi sem fram fer í félagsmiðstöðvum borgarinnar á hverjum degi.