Fjölnota íþróttahús tekið í notkun í Grafarvogi | Reykjavíkurborg

Fjölnota íþróttahús tekið í notkun í Grafarvogi

þriðjudagur, 27. nóvember 2018

Nýtt fjölnota íþróttahús fyrir boltaíþróttir var formlega tekið í notkun í dag í Egilshöll í Grafarvogi.

 • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri klippir á borða með hjálp hressra krakka.
  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri klippir á borða með hjálp hressra krakka í FJölni en nýtt íþróttahús var vígt við Egilshöll í dag.
 • Fjölmennt var í nýja íþróttahúsinu í Egilshöll.
  Fjölmargir lögðu leið sína í Egilshöll í dag þegar nýtt íþróttahús var vígt þar í dag fyrir boltaíþróttir.
 • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hélt tölu.
  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk krakkana til að hrópa Áfram Fjölnir! óskaði þeim til hamingju með nýja húsið og bað þau um að ganga vel um.
 • Ingó Veðurguð spilar á gítar og syngur.
  Ingó Veðurguð fékk alla til syngja og tralla með. Það var mikið stuð.
 • Fjölniskrakkar.
  "Sá sem er síðastur að setjast er fúlegg," sagði Ingó og allir settust með það sama.
 • Frábært fjör í Fjölnishöllinni.
  Það var frábært fjör í Fjölnishöllinni þegar hún var vígð í dag.
 • Jón Karl Ólafsson formaður Fjölnis.
  Jón Karl Ólafsson formaður Fjölnis var ánægður með nýja húsið sem hann gaf nafnið Fjölnishöllin við góðar undirtektir viðstaddra.

Það var kátt á hjalla í Egilshöll í dag en þar var  nýtt fjölnota íþróttahús fyrir boltaíþróttir vígt af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og mjög hressum krökkum sem hrópuðu af öllum mætti. Áfram Fjölnir!

Reginn fasteignafélag byggði íþróttahúsið ásamt öðrum mannvirkjum í Egilshöll. Reginn rekur íþróttaaðstöðuna en Reykjavíkurborg leigir tíma í húsinu fyrir íþróttafélagið samkvæmt samkomulagi. Skrifað var undir samkomulag um þennan rekstur í janúar 2017 en íþróttahúsið hefur risið á undraskömmum tíma.

Húsið er 2.750 fermetrar að stærð og þar verður aðstaða til að æfa m.a handbolta og körfubolta en þær íþróttir hafa verið í mikill sókn í Grafarvogi.

Í máli Jóns Karls Ólafssonar, formanns Fjölnis, kom fram að yfir 4.000 iðkendur æfa íþróttir hjá Fjölni í fjölmörgum íþróttagreinum og starfa um 200 manns við þjálfun þar á hverjum degi. Ekki er langt síðan vegleg fimleikahöll var byggð við Egilshöll.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri klippti á borða ásamt hundruðum ungra íþróttaiðkenda. Hann minnti krakkana á að þetta væri höllin þeirra og að þau yrðu að ganga vel um hana.

Ingó Veðurguð spilaði og söng nokkur vel valin lög sem viðstaddir tóku hressilega undir. Síðan fengu allir íspinna til að fagna þessum tímamótum í íþróttastarfi Fjölnis.

Í húsinu verður ennfremur aðstaða fyrir  áhorfendur þegar fram líða stundir.