Fjölnota íþróttahús mun rísa í Suður Mjódd

Íþróttir og útivist

""

Borgarráð hefur samþykkt að heimila byggingarnefnd um uppbyggingu íþróttamannvirkja ÍR í Suður Mjódd að halda áfram undirbúningi og framkvæmdum við mannvirkin.

Fyrirhugaðar framkvæmdir íþróttamannvirkja á lóð ÍR í Suður Mjódd eru í samræmi við samning Reykjavíkurborgar og íþróttafélagsins ÍR sem samþykktur var í borgarráði snemma árs 2017.

Tilboð hafa nú verið opnuð í alútboð vegna byggingar á fjölnota íþróttahúsi og hliðarbyggingu við það og í kjölfarið hafa kostnaðaráætlanir vegna samningsins verið endurmetnar.

Heildarkostnaður við þennan fyrsta áfanga er áætlaður rúmlega 2,3 milljarðar króna á núverandi verðlagi sem er 14% hærra en upphaflegur samningur við íþróttafélagið gerði ráð fyrir. Hækkun kostnaðaráætlunar er 314 milljónir króna. Byggingarnefnd hyggst skoða hvernig ná megi fram raunhæfum sparnaði við verkefnið m.a. með því að draga úr umfangi án þess það hafi áhrif á not félagsins af byggingunum.

Fjölnota íþróttahús verður 4.326 fermetrar að stærð og hliðarbygging við það 1.260 fermetrar. Verða ýmis rýmis sem áður voru hugsuð í viðbyggingu við íþróttahúsið nú staðsett í hliðarbyggingunni í sparnaðarskyni.

Í byggingunum verður fjölnota íþróttasalur með hálfum knattspyrnuvelli auk æfingasvæðis fyrir frjálsar íþróttir í vesturenda hússins.

Til stendur samkvæmt samningi við ÍR að byggja íþróttahús með parketgólfi við þessar byggingar en það verður ekki gert í þessum fyrsta áfanga en undirbúningsvinna er að hefjast.

Heilmiklar framkvæmdir hafa verið á svæði ÍR í Suður Mjódd en þar er verið að búa til nýjan frjálsíþróttavöll ásamt vallarhúsi. Búið er að steypa upp húsið og næsta skref er að ljúka því að innan.