Fjölnota íþróttahús KR í útboðsferli

Framkvæmdir

Húsið verður alls um 6700 fermetrar og þar af er íþróttasalur um 4400 fermetrar en húsið er í miðju deiliskipulagssvæðisins.
Teikning af svæði KR.

Borgarráð hefur samþykkt að heimila umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur að hefja útboðsferli vegna byggingar á nýju fjölnota íþróttahúsi KR við Frostaskjól, sem mun bæta æfingaaðstæðu mjög fyrir iðkendur á öllum aldri. Húsið verður alls um 6700 fermetrar og þar af er íþróttasalur um 4400 fermetrar. 

Í húsinu verður hægt að æfa knattspyrnu innandyra á gervigrasvelli og miðað við að hægt sé að keppa mótsleiki í átta manna bolta. 

Greining með þarfir allra deilda í huga

Í hliðarbyggingu er gert ráð fyrir skrifstofurýmum, lyftingarsal, fundarsölum og öðrum rýmum sem þjónusta starfsemi hússins. Þá er gert ráð fyrir svölum inni í íþróttasal ásamt svölum utan á hliðarbyggingu sem snýr að aðalvelli KR. Þarfagreining var unnin út frá þörfum allra deilda félagsins.

Um er að ræða alútboð sem byggt er á ígildi bygginganefndarteikninga. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2024-2027 er gert ráð fyrir 2,5 milljörðum króna til verkefnisins. Þar af eru 100 milljónir króna á árinu 2024, 500 milljónir króna á árinu 2025, 1000 milljónir króna á árinu 2026 og 900 milljónir króna á árinu 2027. Gert verður ráð fyrir þessu greiðsluplani í útboðsgögnum.

Nýtt deiliskipulag í gildi

Borgarráð samþykkti á fundi sínum 20. maí 2021 samkomulag við Knattspyrnufélag Reykjavíkur um uppbyggingu á lóð KR við Frostaskjól auk þátttöku Reykjavíkurborgar í byggingu nýs fjölnota íþróttahúss á svæðinu. Deiliskipulag fyrir svæði KR við Frostaskjól var samþykkt í borgarráði 30. júní 2022. Bygginganefnd vegna framkvæmda við fjölnota íþróttahús var skipuð af borgarstjóra í ágúst 2022. Samhliða þessu vinnur byggingarnefnd á vegum KR að heildaruppbyggingu svæðis.