Fjölgun öryggismyndavéla í miðborginni

Mannlíf Mannréttindi

""

Stefnt er að fjölgun öryggismyndavéla í miðborg Reykjavíkur, bættri lýsingu á svæðinu, auknum sýnileika lögreglu og áframhaldandi samstarfi við eigendur skemmtistaða um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði.

Þetta eru helstu niðurstöður fundar sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, og borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, áttu í Ráðhúsinu í dag ásamt ofbeldisvarnarnefnd. Fundarmenn voru einnig sammála um mikilvægi þess að auka fræðslu í skólum um ofbeldi og afleiðingar þess. 

Lögreglan og borgaryfirvöld hafa átt gott samstarf þegar öryggi borgaranna er annars vegar og svo verður áfram. Þá er skemmst að minnast samkomulags um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði, sem skrifað var undir í lok síðasta árs. Að því standa lögreglan, borgaryfirvöld, slökkviliðið og Samtök ferðaþjónustu (SAF) fyrir hönd skemmtistaða í Reykjavík. Samkomulagið miðar að því að auka öryggi á og við skemmtistaði með auknu  samstarf milli þessara aðila með sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi.

Ofbeldisvarnarnefnd er skipuð fulltrúum frá borgarstjórn, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, Stígamótum, Samtökum um kvennaathvarf og Embætti landlæknis. 

tengt efni; Samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði