Fjölbreyttar aðferðir í lestrarkennslu skila mestum árangri

Skóli og frístund

""

Reykjavíkurborg hefur langa reynslu af því að skima fyrir lestrarvanda í 1. og 2. bekk, líka hjá þeim skólum sem hafa nýtt sér Byrjendalæsi.  

Skóla- og frístundasvið hefur aðallega nýtt sér lesskimunina Læsi, lestrarskimun í 1. og 2. bekk til þess að fylgjast með framförum þeirra grunnskóla sem hafa nýtt sér Byrjendalæsi.  Það er m.a. gert vegna þess að mikil áhersla er lögð á fyrstu tvö ár grunnskólans í Byrjendalæsis - aðferðinni auk þess sem fyrirlögn leskimunarinnar á sér langa og samfellda sögu í Reykjavík.

Í Reykjavík fóru fyrstu skólarnir að nota Byrjendalæsi skólaárið 2008-2009, alls fjórir skólar, sem sérstaklega tóku þessa aðferð upp vegna þess að staða nemenda í lestri var töluvert lakari en að meðaltali í Reykjavík.  Þremur árum síðar hafði árangur nemenda í lestri í þessum fjórum skólum í lestrarskimuninni Læsi batnað verulega eða úr því að 48% nemenda lásu sér til gagns í 62%.  Munur á meðaltali þessara skóla á samræmdum prófum í íslensku í 4.bekk og annarra skóla í Reykjavík fór úr 2,0 í 0,2 á þessum sama tíma. Í nýjustu lesskimun sem fram fór í Reykjavík í vor voru 3 af þessum 4 skólum fyrir ofan meðaltal Reykjavíkur.

Fleiri reykvískir skólar fóru í kjölfarið að nýta sér Byrjendalæsi og segja má að margir þeirra hafi farið á sömu forsendum og fjórir fyrstu skólarnir, vegna þess að hægt var að gera betur hvað læsi snerti.  Námsárangur er flókið samspil margra áhrifaþátta í námsumhverfi og bakgrunni nemenda og því hefur það ekki komið skóla- og frístundasviði á óvart að árangur skóla í Byrjendalæsi í Reykjavík sé sveiflukenndur eins og árangur þeirra skóla sem beitt hafa öðrum aðferðum. Hægt er að benda á fjölmarga jákvæða þætti í námi barna sem gagnlegt er að skoða aðra en heildarárangur á samræmdum prófum. Samkvæmt greiningu sem Námsmatsstofnun vann 2013 kom fram að þó meðaltal skólanna sem þá voru skoðaðir hafi farið niður á við sem nemur 0,6 stigum af 60 stiga kvarða samræmdra prófa, þá hafði meðaleinkunn þess nemendahóps sem lakast stóð, hækkað umtalsvert eða úr 17,4 í 18,9. 

Reykjavíkurborg hefur metið alla grunnskóla borgarinnar með ytra mati á undanförnum árum. Ein af niðurstöðum þess er að fjölbreyttar kennsluaðferðir og markviss samvinna nemenda og sjálfstæði í námi einkenna þá skóla sem ná hvað mestum árangri. Mikilvægt er að kennarar fái endurgjöf á störf sín og þar með hvatningu til að gera sífellt betur og auka fjölbreytni í kennsluháttum. Almenn og opin umræða um leiðir til þess að auka fjölbreytni kennsluhátta ásamt umræðu um hvernig auka má virkni nemenda og aðild þeirra að leiðum í námi og kennslu er því sérlega mikilvæg.