Fjögur skólastig saman í Hólaborg

Skóli og frístund

Fjögur skólastig saman í Hólaborg

Háskólanemar, framhaldsskólanemar, grunnskólanemar og leikskólabörn námu saman í leikskólanum Hólaborg í vetur og var samstarfið á milli skólastiga bæði skemmtilegt og lærdómsríkt.

Blöndun skólastiga er engin nýlunda í leikskólanum Hólaborg en hún var sérstaklega mikil síðastliðinn vetur þegar fjögur skólastig voru þar saman komin.

Vinátta á sér engin landamæri

Háskólanemar í vettvangsnámi, framhaldsskólanemar í íslenskunámi og grunnskólanemar í hópavinnu blönduðust vel í hóp leikskólabarnanna. Misstóra skó og úlpur mátti sjá víða um húsið og þótti starfsfólki Hólaborgar gaman að sjá nemendur ólíkra skólastiga í leik saman. Sumir áttu góðar stundir við húsabyggingar, aðrir við lestur og einhverjir sóttu meira í útiveru.

Börn hafa endalausan áhuga á nýjum upplifunum og eru uppfull af hugmyndum sem leiða þau áfram. Margir mættu nýjum áskorunum bæði í samskiptum og í leik og ný tengsl mynduðust. Skólastarfið er lífið sjálft en ekki undirbúningur fyrir lífið og vinátta á sér engin landamæri.