Fiona og Jafnréttisskólinn verðlaunuð á Bessastöðum

Skóli og frístund

Íslensku menntaverðlaunin 2023

Fiona Elizabeth Oliver kennari við Víkurskóla í Reykjavík hlaut Íslensku menntaverðlaunin í flokki framúrskarandi kennara. Þá hlaut Jafnréttisskóli Reykjavíkur hvatningarverðlaun fyrir menntaumbætur sem þykja skara fram úr. Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum í gærkvöldi við hátíðlega athöfn.

Ómetanlegt starf unnið í Jafnréttisskóla Reykjavíkur

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir jafnréttisstýra sem hefur verið í stafni Jafnréttisskólans veitti hvatningarverðlaununum viðtöku. Í umsögn segir að Jafnréttisskólinn í Reykjavík hafi „unnið ómetanlegt starf við að miðla þekkingu á jafnréttismálum til starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar og veita ráðgjöf og stuðning varðandi ýmis málefni sem varða jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði.  Þetta starf hefur ekki aðeins nýst í starfi með börnum í  höfuðborginni, heldur getur þjónusta skólans nýst öllum kennurum og öðrum uppalendum um land allt.“

Íslensku menntaverðlaunin 2023

Byggir á sjálfsmati, hvatningu og fjölbreytileika

Tilnefning Fionu byggir á þróun hennar á verkefnamiðuðu námi og leiðsagnarnámi í Víkurskóla. Í umsögninni segir að hún hafi náð miklum árangri í kennslu sinni, meðal annars með því að nota aðferðir leiðsagnarnáms sem byggja á uppbyggjandi leiðsögn, sjálfsmati, hvatningu og fjölbreytileika. Þá hefur hún tekið virkan þátt í að þróa verkefnamiðað nám í skólum en hún hefur þróað samþættingarverkefna sem kallast Uglur.

Íslensku menntaverðlaunin 2023

Gleður alla í kringum sig

Í tillögum að tilnefningunni kom einnig fram:

„Fiona er framúrskarandi kennari sem mætir nemendum sínum af virðingu og fagmennsku … Hún er frábær samstarfsfélagi, styðjandi í teymisvinnu, umburðarlynd og hefur smitandi hlátur sem gleður alla sem í kringum hana eru.“

„Fiona nær vel til nemenda sinna, hefur mikinn metnað fyrir þeirra hönd, er hvetjandi og sér styrkleika hvers nemenda og vinnur með þá. Fiona nýtur mikillar virðingar nemenda sinna og þeir bera traust til hennar, leita til hennar og hún leiðbeinir þeim á jákvæðan og uppbyggjandi hátt í að ná markmiðum sínum.“

Verkfærakistur öllum opnar

Starfsemi Jafnréttisskólans hefur vaxið mjög frá því hann var stofnaður áður 2013 og hefur Maríanna Guðbergsdóttir hafið störf við skólann til að vinna með Kolbrúnu að verkefnum skólans sem hafa vaxið jafnt og þétt. Jafnréttisskólinn þjónustar alla starfsstaði skóla- og frístundasviðs og sem dæmi um verkfæri má nefna: Heimasíða sem er öllum opin. Þar má finna aldursskiptar verkfærakistur sem geyma ýmsan fróðleik, kennsluhugmyndir og leiðbeiningar fyrir starfsfólk og forsjáraðila varðandi kynja-, hinsegin- og kynfræðslu.

Verkefni Jafnréttisskólans hefur vaxið jafnt og þétt

Jafnréttisskólinn stýrir árlega kynheilbrigðisátakinu Vika6. Þá fær starfsfólk grunnskóla og félagsmiðstöðva stuðning og hvatningu til að bjóða upp á fjölbreytta kynfræðslu. Unglingar borgarinnar hafa mikil áhrif á inntak vikunnar og velja þeir þema hvers árs. Unnið er útfrá hugmyndum um alhliða kynfræðslu og býður Jafnréttisskólinn fram kennsluhugmyndir, fræðslumyndbönd, fræðsluveggspjöld, smokka, opna rafræna fræðslufundi, Instagram og fleira sem starfsfólk getur nýtt í vikunni. Jafnréttisskólinn stýrir einnig innleiðingu á alhliða kynfræðslu í grunnskólum borgarinnar.

Íslensku menntaverðlaunin 2023