Félagsráðgjafanemar í hópi símavina

Covid-19 Velferð

""

Velferðarsvið og  Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands hafa boðið félagsráðgjafanemum hlutverk sjálfboðaliða í verkefninu Spjöllum saman.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands eru í samstarfi um kennslu og rannsóknir á sviði velferðarmála og löng hefð er fyrir því að nemendur við Félagsráðgjafardeild  fái starfsþjálfun á velferðarsviði. Að sögn Steinunnar Hrafnsdóttur varadeildarforseta félagsráðgjafadeildar kom hún með þá hugmynd að nemendur í félagsráðgjöf gætu sinnt sjálfboðastarfi fyrir viðkvæma hópa á tímum Covid-19 og Regínu Ásvaldsdóttir sviðsstjóra þótti símavinir tilvalið verkefni fyrir nemana að spreyta sig á.

Auglýst var eftir nemum og nú er um 35 nemendur sem sinna þessu sjálfboðastarfi fyrir eldri borgara. Starfið er skipulagt af verkefnastjóra símavina í samstarfi við Félagsráðgjafardeild. Nemendur sem það kjósa munu geta fengið starfið metið til eininga í námskeiði um sjálfboðaliðastarf næsta haust. Nemarnir taka þátt í verkefninu ásamt starfsfólki í félagsstarfi velferðarsviðs og sjálfboðaliðum úr röðum eldri borgara frá Landsambandi Eldri borgara og Félagi eldri borgara.

Það er mikill fengur í því að fá félagsráðgjafanema sem í námi sínu  læra m.a. um áföll, sorg og sálræna skyndihjálp auk námskeiða um úrræði velferðarkerfisins. Námið þykir góður undirbúningur fyrir störf við velferðarþjónustu og með fólki.  Með því að vera símavinur gefst sjálfboðaliðunum einnig tækifæri til að kynna sér þjónustu við eldri borgara í Reykjavík.

Hringt er í allt fólk sem er 85 ára og eldri, býr einsamalt og hefur fengið þjónustu frá Reykjavíkurborg. Í símtalinu er líðan fólksins og aðstæður kannaðar um leið og rætt er um daginn og veginn.

Símaspjallið kemur ekki í stað heimaþjónustu, heimahjúkrunar eða annarar þjónustu Reykjavíkurborgar heldur er það viðbót. Farið er í átakið ekki síst til að sýna náungakærleik og standa saman á þessum óvenjulegu tímum.