Félagsleg kynfræðsla, hinsegin ungmenni og lýðræði í skólastarfi

Stjórnsýsla Skóli og frístund

""

Félagsleg kynfræðsla, málefni hinsegin ungmenna og mikilvægi lýðræðis í skólastarfi voru málefni í brennidepli á sameiginlegum fundi skóla- og frístundaráðs og mannréttinda, nýsköpunar og lýðræðisráðs fyrir sl. helgi.

Samþykkt var að stækka fræðsluverkefni um aukna kynfræðslu á öllum skólastigum með mikilli áherslu á félagslegan þátt kynfræðslunnar og sjálfsmynd nemenda. Verkefnið hefur verið unnið við góðar undirtektir í Foldaskóla og Seljaskóla og nú munu Réttarholtsskóli og Hagaskóli bætast í hópinn en þar eru fjölmennar unglingadeildir.  Verkefnið er unnið í samvinnu við félagsmiðstöðvar og skólahjúkrunarfræðinga skólanna og er sérstaklega brýnt í ljósi þess hve klámvæðing er útbreidd meðal ungmenna, en nýjustu rannsóknir sýna að yfir 60% drengja í 10. bekk horfa reglulega á klám. 

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa og skóla- og frístundasvið hafa um árabil átt gott samstarf um hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar með þjónustusamningi við Samtökin 78, sem boðið hafa kynja- og hinseginfræðslu í samstarfi við frístundamiðstöðina Tjörnina. Á fundinum var lagt til að auka og efla fræðslu um kynjafræði og hinseginfræði í skóla- og frístundastarfi borgarinnar, þar með talið að auka þjálfun starfsfólks á þeim sviðum. Jafnrétti er ein af grunnstoðum menntunar og jafnréttisfræðsla, þ.mt. kynjafræðsla og hinseginfræðsla er mikilvæg forsenda þess að grundvallarþættir nýrrar menntastefnu borgarinnar, m.a. um tilfinningalæsi, réttlætiskennd, siðferði og heilbrigði nái til allra barna en ekki bara sumra.

Að lokum var lögð fram tillaga um lýðræði í skólastarfi og umbætur í starfi skólaráða þjónar því markmiði ásamt því að tryggður er réttur barna til að láta í ljós skoðanir sínar um mál sem þau varða í takti við 12 gr. Barnasáttmálans. Skólaráð eru mikilvægur samráðsvettvangur skólastjóra, nemenda og foreldra um veigamestu málefni hvers grunnskóla og þau eiga sér trygga stoð í grunnskólalögum. Nýleg könnun skóla- og frístundasviðs meðal skólastjóra sýnir að þörf er á að skerpa á starfi skólaráða, tryggja skilyrðislausa aðkomu nemenda að kosningu fulltrúa nemenda, auka stuðning við fulltrúa nemenda og sérstaklega að tryggja gott flæði og miðlun upplýsinga milli fulltrúa nemenda í skólaráðum og hlutaðeigandi nemendhópum.

Sameiginlegur fundur ráðanna gekk vel og eining var um efni fundarins og ofangreindar tillögur sem voru samþykktar að færu í framkvæmd á næsta skólaári.