Feðgar bólusettir gegn Covid-19 í dag 

Covid-19 Velferð

""

Í dag voru nær allir íbúar hjúkrunarheimilanna Seljahlíðar og Droplaugarstaða bólusettir gegn Covid-19, hátt í hundrað manns. Fyrstur meðal almennings hér á landi til að fá bóluefni var Þorleifur Hauksson, íbúi í Seljahlíð. Skömmu síðar var pabbi hans bólusettur á Droplaugarstöðum. 

Í dag hófust bólusetningar vegna Covid-19, eftir langþráða bið. Það var Þorleifur Hauksson, íbúi á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð, sem var fyrsti Íslendingurinn utan heilbrigiðisstéttar til að verða bólusettur en Seljahlíð er annað tveggja hjúkrunarheimila sem Reykjavíkurborg rekur. Þorleifur var bólusettur við hátíðlega athöfn og var Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra meðal annars mætt til að vera viðstödd þennan sögulega viðburð. Í Seljahlíð eru 20 íbúar. 

Um svipað leyti hófust bólusetningar á Droplaugarstöðum og var þeim lokið fljótlega eftir hádegið. Þar voru í heild 77 íbúar bólusettir. Fyrst í röðinni var Jóhanna Eggertsdóttir. Þá er gaman að geta þess að á meðal íbúa sem fengu bólusetningu á Droplaugarstöðum var Haukur Ársælsson, pabbi fyrrnefnds Þorleifs, þess fyrsta til að verða bólusettur.

Jórunn Frímannsdóttir, forstöðumaður Droplaugarstaða, segir að vel hafi gengið að bólusetja íbúa í dag og ánægja hafi ríkt á meðal starfsfólks og íbúa. „Þetta gekk eins og í sögu og engin vandamál komu upp. Þetta er svolítill léttir, því nú færumst við nær því að geta farið að lifa eðlilegu lífi,“ segir hún. 

Gert er ráð fyrir að starfsfólk hjúkrunarheimila verði bólusett á fyrstu dögum næsta árs. Það sama á við um aðra sem tilheyra forgangshópum, svo sem skjólstæðinga heimahjúkrunar á vegum velferðarsviðs og starfsfólk heimahjúkrunar. Þeir íbúar sem ekki komast sjálfir í bólusetningu fá hjúkrunarfræðing heim. Starfsmenn í velferðarþjónustu fá smáskilaboð með dagsetningu bólusetningar og leiðbeiningum þegar röðin kemur að þeim.