Faghópur um úrbætur í þjónustu fyrir börn og unglinga | Reykjavíkurborg

Faghópur um úrbætur í þjónustu fyrir börn og unglinga

þriðjudagur, 8. maí 2018

Á vegum velferðarsviðs hefur fagráð verið sett á laggirnar til að fylgja eftir  aðgerðaáætlun í tíu liðum sem var samþykkt í borgarráði í mars síðastliðnum í kjölfar skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar vegna kynferðisbrotamála. Guðný Björk Eydal prófessor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands mun leiða fagráðið.

 

  • frá vinstri; Tinna Björg Sigurðardóttir, Bryndís Gestsdóttir, Guðný Björk Eydal og Þorgeir Magnússon.
    Faghópur frá vinstri; Tinna Björg Sigurðardóttir, verkefnastjóri, Bryndís Gestsdóttir, félagsráðgjafi, Dr. Guðný Björk Eydal, prófessor og Þorgeir Magnússon, sálfræðingur.

Meðal aðgerða er að styrkja ráðningaferli og fjölga starfsstéttum sem þurfa að skila inn sakavottorðum og kalla eftir vottorðum með reglubundnum hætti, setja upp rafrænan ábendingahnapp, styrkja næturvaktir á sólarhringsstofnunum, skima fyrir ofbeldi og setja upp fræðsluáætlun fyrir stjórnendur og starfsmenn. Mörg verkefnanna eru komin af stað en eitt helsta hlutverk fagráðsins er að afla ítarlegra upplýsinga frá nágrannalöndunum um hliðstæð verkefni auk þess að vinna að áhættugreiningu á sólarhringsstofnunum fyrir börn og unglinga.

Áratugaþekking í faghóp

Auk Guðnýjar Bjarkar Eydal eru þau Þorgeir Magnússon, deildarstjóri skólaþjónustu í Árbæ og Grafarholti og Bryndís Gestsdóttir, félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur í fagráðinu.Tinna Björg Sigurðardóttir er starfsmaður hópsins.

Dr. Guðný Björk Eydal er prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Hún hefur um áratugaskeið unnið að rannsóknum á fjölskyldustefnu og velferðarþjónustu. Síðustu þrjú ár hefur Guðný stýrt viðmikilli norrænni rannsókn á viðbrögðum félagsþjónustu sveitarfélaga við vá sem unnin var í tilefni af formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni. Auk fræðastarfa hefur Guðný veitt stjórnvöldum, bæði hér heima og erlendis, ráðgjöf um fjölskyldustefnu og var hún m.a. fulltrúi Háskóla Íslands í verkefnisstjórn sem vann tillögur að fjölskyldustefnu með áherslu á börn og barnafjölskyldur.

Bryndís Gestsdóttir er félagsráðgjafi  með víðtæka starfsreynslu en starfar nú hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Þorgeir Magnússon er reyndur sálfræðingur, sem hefur starfað í áratugi við ráðgjöf, stjórnun og greiningu mála sem snerta börn, barnavernd og ýmsa þjónustu borgarinnar við einstaklinga og fjölskyldur.

Tinna Björg Sigurðardóttir er verkefnastjóri í deild gæða og rannsókna hjá velferðarsviði en þar hefur hún sinnt fjölbreyttum verkefnum s.s. stefnumótunar og gæðamálum, tölfræði, vinnslu og miðlun og verkefnum sem lúta að samhæfingu á verk og vinnulagi á ýmsum sviðum þjónustunnar.