Í gær fór loftmengun vegna svifryks yfir heilsuverndarmörk í borginni og er talið víst að uppþyrlun vegna bílaumferðar hafi verið ástæðan. Rannsóknir á samsetningu svifryks hafa sýnt að malbiksagnir eru meira en helmingur svifryksagna og vega nagladekk þungt þegar kemur að sliti á götum. Reykjavíkurborg lét því rykbinda helstu umferðargötur í nótt. Langbest er þó að skilja bílinn eftir heima og fara til og frá vinnu og skóla með öðrum hætti - ef kostur er.
Það er sterkt samband milli svifryksmengunar og nagladekkja og af þeim sökum er hlutfall negldra og ónegldra dekkja kannað mánaðarlega yfir veturinn. Fyrsta talning vetrarins á hlutfalli milli nagladekkja og annarra dekkja fór fram 11. nóvember og reyndist hlutfallið skiptast þannig að 29,5% ökutækja var á negldum dekkjum og 70,5% var á öðrum dekkjum.
Hlutfall negldra dekkja er því töluvert lægra en á sama tíma í fyrra þegar það var 34,9% og enn lægra en fyrir tveimur árum þegar hlutfallið var 37,2%. Þetta eru góðar fréttir frá mörgum sjónarhornum því nagladekk spæna upp malbik og skapa loftmengun sem truflar fólk með viðkvæm öndunarfæri.
Svifryk yfir heilsuverndarmörkum
Svifryk (PM10) fór yfir heilsuverndarmörkin í gær 18. nóvember á mælistöðinni við Grensásveg. Heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring en urðu 98 í gær. Á öðrum mælistöðvum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, Vesturbæjarlaug og Bústaðarvegi/Háaleitisbraut var talan rétt undir mörkum.
Reykjavíkurborg lét rykbinda í nótt helstu umferðargötur og virðist það virka því mun lægri svifryksgildi mælast í dag þótt vissulega sé fína svifrykið nokkuð hátt við Grensás. Samkvæmt veðurspá bætir í vind í dag og búist er við úrkomu þegar líða tekur á daginn en þá minnka enn líkurnar á svifryki.
Að velja góð vetrardekk
Reykjavíkurborg hvetur bílstjóra áfram til að velja fremur góð vetrardekk heldur en nagladekk undir bílinn og aka eftir aðstæðum. Einnig að skoða daglega hvort hægt sé að skilja bílinn eftir heima.
Það er ekki aðeins svifrykmengun sem tengist bílaumferð heldur getur styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) einnig orðið hár í borginni. Köfnunarefnisdíoxíðmengunin í borginni kemur frá útblæstri bifreiða og er mikil á morgnanna og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Mest ber á þessari mengun í hægviðri og frosti.
Bæði svifryk og köfnunarefnisdíoxíð valda ertingu í lungum og öndunarvegi.
Ábendingar og auglýsingar
Fram kemur í flestöllum könnunum á vetrardekkjum að engin dekkjategund getur verið best í öllu, ekkert dekk er best við allar aðstæður. Ennfremur segja umferðarsérfræðingar að þótt tiltekin dekkjategund skori hæst í könnun þá er hún alls ekki besti kosturinn fyrir alla. Allt sem þarf er að velja sér grip við hæfi.
Tengill