Erasmus styrkir til skóla og frístundamála

Skóli og frístund

Hópurinn sem tók formlega við samningum um verkefnin sjö ásamt fulltrúa Erasmusplus

90 kennarar og stjórnendur í 22 grunnskólum og leikskólum Reykjavíkurborgar fá tækifæri til að sækja sér fjölbreytta þekkingu í Evrópu á næstu tveimur árum. Skrifað var undir samninga vegna Erasmus+ verkefna fyrir nám og þjálfun kennara en það eru sjö verkefni sem fá styrk að upphæð rúmlega 22. milljóna króna.  

Verkefnin sem fengu styrk eiga það öll sameiginlegt að stuðla að nýsköpun og þróun í skólastarfi.

Vættaskóli fær styrk til að senda stjórnendur á námskeið í stjórnun skóla. Grandaskóla sendir þrjá kennara á námskeið í átakastjórnun og forvörnum gegn einelti.  

Leiðtogar í upplýsingatækni - þekkingaröfl og miðlun er samstarfsverkefni Skrifstofu Skóla- og frístundasviðs, Selásskóla, Garðaskóla, Grunnskóla Snæfellsbæjar, Hörðuvallarskóla og Hafnafjarðarbæjar og felur í sér þátttöku leiðtoga í upplýsingartækni frá skólunum og sveitarfélögunum í námskeiðum og ráðstefnum í Evrópu.

Framsýnir leikskólar - Fjölbreytt þekking er verkefni sem leitt er af skrifstofu Skóla- og frístundasviðs og felur í sér þátttöku starfsmanna á leikskólunum Grandaborg, Geislabaug, Austurborg, Múlaborg og Kvistaborg í námskeiðum og ráðstefnum tengd leikskóla á næstu 15 mánuðum.

Nýsköpun og nýir straumar - Starfsþróun fagfólks á skólasöfnum er samstarfsverkefni Skrifstofu skóla- og frístundasviðs og sex skóla í borginni, Selásskóla, Fossvogsskóla, Foldaskóla, Háteigsskóla, Háaleitisskóla og Austurbæjarskóla. Verkefnið felur í sér þátttöku starfsmanna á skólasöfnum á ráðstefnu í Króatíu ásamt því að fjármagna náms- og kynnisferð til Svíþjóðar.

Þekkingarskólar í leiðsagnarnámi er verkefni felur í sér að fara með fulltrúa fimm skóla í heimsókn í skóla í Bretlandi sem unnið hafa eftir hugmyndafræði um leiðsagnarnám/leiðsagnarmat. Skólarnir sem taka þátt í verkefninu eru Háaleitisskóli, Dalskóli, Hamraskóli, Hlíðaskóli, Kelduskóli.

Samþætting á Innra og ytra mati í leikskólum, grunnskólum og frístund er verkefni þar sem matsteymi Skrifstofu skóla- og frístundasviðs ætlar að sækja námskeið, ráðstefnur og skipuleggja námsheimsóknir til að leita leiða svo hægt sé að betur samþætta innra og ytra mat í samræmi við áherslur nýrrar menntastefnu. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Vættaskóla, Engjaborg og Gufunesbæ.