Enn ​​​​​​​hækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs

""

Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) hefur farið hækkandi í mælistöðinni við Grensás það sem af er degi og fór klukkustundagildið yfir heilsuverndarmörk kl. 15 en það mældist 204,9 míkrógrömm á rúmmetra.

Búast má við háum gildum í nálægð við stórar umferðargötur það sem eftir lifir dags, einkum stofnbrautir og þjóðvegi í þéttbýli. Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er að jafnaði mest á morgnanna og í eftirmiðdaginn þegar umferð er þung. Þegar froststillur eru helst mengunarskýið þó lengur yfir borginni og gildi geta verið há stóran hluta úr degi.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og frosti í dag og umtalsverðar líkur á því að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk við Grensásveg.  Gert er ráð meiri vindi næstu daga og því ekki víst að ástandið verði viðvarandi.

Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra en leyfilegt klukkustundargildi er 200 míkrógrömm á rúmmetra.  Fara má yfir sólarhringsheilsuverndarmörkin 7 sinnum á ári og klukkustundargildið 18 sinnum á ári skv. reglugerð.

Fólk hvatt til fjarvinnu til að draga úr notkun einkabílsins

Almenningur er hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna. Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu og óþægindum í lungum og öndunarvegi. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk köfnunarefnisdíoxíðs, svifryks og annarra mengandi efna á www.loftgaedi.is.