Enn bætist við hjólastígakerfið í Reykjavík

Samgöngur

""

Reykjavíkurborg bætir 2,4 kílómetrum við sérstakt hjólastígakerfi borgarinnar í ár. Hluti stíganna er samstarfsverkefni með Vegagerðinni sem greiðir hluta kostnaðar.

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að ljúka hönnun og bjóða út framkvæmdir vegna verkefna hjólreiðaáætlunar 2019. Kostnaður við verkefnin er áætlaður 530 milljónir króna en Vegagerðin greiðir hluta þeirra. Hlutur Reykjavíkur er 450 milljónir króna.

Áformað er að gera 2,4 kílómetra af nýjum hjólastígum í sumar en þeir eru aðgreindir frá umferð gangandi og akandi þar sem því verður við komið.

Allar rannsóknir sýna að fólk hjólar meira eftir því sem stígakerfi fyrir hjólreiðar batnar. Þannig hefur umferð hjólandi farið stigvaxandi í Reykjavík eftir því sem aðstaða fyrir hjólreiðafólk batnar.

Samkvæmt nýlegum fréttum hefur orðið mikil aukning í notkun á rafmagnshjólum og sýna sölutölur að sala á rafmagnshjólum hefur verið fjórum sinnum meiri á þessu ári miðað við árið í fyrra.

Þá sýna talningar á samgönguhjólreiðum fólks við Nauthólsvík að um 1.800 hjól hafa farið þar um á hverjum degi síðustu daga. Yfir 36.000 ferðir voru taldar þar í maí sem er mesta umferð hjóla í einn mánuð sem mælst hefur í Reykjavík. Mesta umferð sem áður hefur verið talin þar var 30 þúsund ferðir í ágúst 2018. Með samgönguhjólreiðum er helgarumferð ekki talin með en hún gæti flokkast undir frístundahjólreiðar.

 

Eftirfarandi verkefni verða unnin:

  • Eiðsgrandi frá bæjarmörkum Seltjarnarness að dælustöð við Keilugranda. Nýr hjólastígur aðgreindur frá gangandi umferð.
  • Bústaðavegur milli Háaleitisbrautar og brúar yfir Kringlumýrarbraut. Nýr hjólastígur norðan Háaleitisbrautar aðgreindur frá gangandi umferð.
  • Elliðaárdalur. Stekkjarbakki að stíg við Fagrahvamm. Nýr hjólastígur aðgreindur frá gangandi umferð.
  •  Elliðaárdalur. Lagfæringar á stíg milli Reykjanesbrautar og Höfðabakka.
  • Geirsgata við Miðbakka milli Lækjargötu að Pósthússtræti. Nýr hjólastígur aðgreindur frá gangandi umferð.
  • Víðidalur. Nýr göngu- og hjólastígur stígur frá Vallarási að stígakerfi Elliðaárdals við Klapparás.