Enginn dagur eins í VoR-teyminu

Í bílum VoR-teymisins er að finna ýmsar nauðsynjavörur fyrir hópinn. Stundum tekur starfsfólkið að sér að keyra notendur þjónustunnar á staði sem þeir þurfa að fara á. Róbert Reynisson
Sara talar í síma við bíl VoR-teymisins.

Sara Ósk Rodriguez Svönudóttir er ein af tólf starfsmönnum Vettvangs- og ráðgjafarteymis Reykjavíkurborgar. Hópurinn veitir einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir margvíslegan stuðning, bæði á vettvangi og í heimahúsum. Þessa dagana er verið að leita að sumarstarfsmanni í teymið.           

„Ég er búin að vinna í VoR-teyminu í fjögur ár og þetta er frábært starf sem hentar mér vel, enda gæti ég aldrei þagað við tölvu í 8 klukkutíma á dag. Í VoR-teyminu veistu aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér, sem er spennandi og skemmtilegt. Ég er afbrotafræðingur og sem slíkur finnst mér algjör draumur að geta veitt fólki þjónustu sem það þarf á þeirra forsendum, án forsjárhyggju eða fordóma.“

Alla jafna eiga þau sem fá þjónustu VoR-teymisins við fjölþættan vanda að stríða og verkefnin sem VoR-teymið tekst á við eru ekki öll einföld úrlausnar. Sara segir það mikilvægt að vera fljót að setja sig inn í nýjar og óvæntar aðstæður, eiga auðvelt með að kynnast einstaklingunum og þekkja sín eigin mörk og annarra.

Aðstoða fólk við að bæta lífsgæði sín

Vettvangshluti VoR-teymisins sinnir vettvangsstarfi í gistiskýlum, bílastæðahúsum eða öðrum ótryggum aðstæðum. Sara vinnur í húsnæðishluta VoR-teymisins en starfsfólkið þar veitir einstaklingum, sem margir hverjir hafa verið heimilislausir en eru nú komnir með heimili, fjölbreyttan stuðning. Sum búa í svokölluðum housing first-íbúðum á vegum borgarinnar en önnur í íbúðum eða herbergjum á vegum ÖBÍ eða á almennum markaði. Stuðningurinn felst meðal annars í því að aðstoða fólk við að halda heimili og bæta lífsgæði sín, á þeirra forsendum. Gerðar eru einstaklingsáætlanir með hverjum og einum sem þeir fá stuðning við að fylgja.

Gott samstarf lykilatriði

Lykilatriði í starfsemi VoR-teymisins er gott samstarf við aðrar stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki, þar sem starfsfólkið gerir mikið af því að aðstoða sína notendur við að sækja sér hina ýmsu þjónustu. Sara segist finna fyrir velvild og skilningi á störfum þeirra í samfélaginu, þó að vissulega sé líka talsvert um fordóma.

Viltu vinna í VoR-teyminu? Þessa dagana er verið að leita að sumarstarfsmanni í VoR-teymið. Smelltu hér til að skoða upplýsingar um starfið (á eftir að fá hlekk á starfið).

Á vettvangi með VoR-teyminu