Enginn bátur sökk á Bátaleikunum

Skóli og frístund

Krakkar láta báta sigla fyrir framan Ráðhúsið á Bátaleikunum 2023.

Bátar smíðaðir og útfærðir af nemendum í 6. bekk Vesturbæjarskóla var siglt á litlu tjörninni við Ráðhús Reykjavíkur í gær. Áskorunin var að búa til bát sem gæti siglt ákveðna vegalengd án þess að sökkva. Börnin fengu frjálsar hendur um það hvernig þau útfærðu lausnina en báturinn átti að vera búinn til úr endurnýtanlegum efnivið og ekki mátti nota rafmagn til að knýja bátinn áfram.

Fengu skipahönnuð í heimsókn

Bátaleikarnir eru STEAM áskorun sem ætlað er að örva rökhugsun með hönnun, þrautalausnum og sköpun. STEAM stendur fyrir science, technology, engineering, art og math. Hluti af leikunum var að fá Birgi skipahönnuð frá Skipasýn í heimsókn til að fræða börnin um ýmislegt sem varðar hönnun báta.

Þurftu að bíta á jaxlinn

Börnin bjuggu til hugarkort um bátahönnunina, teiknuðu bát og nýttu endurnýtanlegan efnivið úr smiðjunni við smíðina. Í ferlinu gátu þau þróað bátinn áfram í prufubátastöð sem komið hafði verið fyrir uppi á þaki. Gullna reglan í verkefninu var að hafa nóg af lími í límbyssurnar og bíta á jaxlinn þegar límið festist á puttunum.

Einum bát hvolfdi en komst aftur á skrið

Góður árangur náðist þegar Bátaleikarnir voru svo haldnir á tjörninni. Enginn bátur sökk og allir komust eitthvað áfram. Einum bát hvolfdi en komst sem betur fer aftur á skrið. Mótorarnir virkuðu misvel en góður gustur frá veðurguðunum gaf flestum byr í seglin sem kom að góðum notum. Börnin skemmtu sér vel og voru mjög spennt að fylgjast með bátunum sínum.