Ellý Katrín Guðmundsdóttir sæmd riddarakrossi

Umhverfi Skipulagsmál

""

Forseti Íslands sæmdi 17. júní, fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, meðal þeirra var Ellý Katrín Guðmundsdóttir fyrrverandi borgarritari og sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Ellý Katrín hlaut riddarakross fyrir störf á opinberum vettvangi og framlag til opinskárrar umræðu um Alzheimer sjúkdóminn.

Ellý Katrín sem er fædd 1964 er lögfræðingur að mennt og með meistarapróf í umhverfis- og alþjóðarétti frá lagadeild háskólans í Wisconsin í Bandaríkjunum. Hún var lögfræðingur hjá Alþjóðabankanum í Washington DC áður en hún kom til starfa hjá Reykjavíkurborg þar sem hún stýrði fyrst umhverfis- og samgöngumálum.

Nefna má að Ellý sat í stjórnarskrárnefnd sem var skipuð að Alþingi árið 2010, auk fjölda annarra starfshópa. Hún hefur verið á listum yfir 100 áhrifamestu konur á Íslandi. Síðustu árin starfaði hún fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar og stýrði m.a. umsókn um að Reykjavík yrði Græna borgin í Evrópu.

Þegar minnið hopar

Þegar minnið hop­ar hét er­indi sem Ellý Katrín Guðmunds­dótt­ir lög­fræðing­ur hélt á fræðslufundi Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar árið 2017 og vakti það mikla athygli. Þar lýsti hún reynslu sinni af því að grein­ast með forstigs­ein­kenni Alzheimer-sjúk­dóms. Þá var Ellý 51 árs en fáheyrt er að svona ung kona greinist með sjúkdóminn. Í hennar tilfelli er ekki um arfgengan sjúkdóm að ræða heldur hending.

Hún lýsti nýlega í Stundinni (5.6.20) aðdraganda þess að hún greindist með Alzheimer. „Ég var orðin svo þreytt eitthvað og var ekki nógu hamingjusöm. Það var eitthvað sem lá á mér. Svo ákvað ég að fara í rannsókn og þá kom í ljós að ég var komin með Alzheimer. Ég hélt kannski að þetta væru tíðahvörf eða kulnun. Ég var einhvern veginn ekki alveg með sjálfri mér.“ (Stundin #119)

Áður en Ellý greindist með Alzheimer voru þau Magnús Karl Magnússon eiginmaður hennar bæði í ábyrgðarstöðum og á fleygiferð á sínum starfsferli. Hann var deildarforseti í læknadeild HÍ og hún var borgarritari í Reykjavíkurborg. Þau segjast vera heppin að því leyti að þau haf sterkan félagslegan bakgrunn, vini og fölskyldu sem hafa staðið þétt við bakið á þeim. Þau Ellý og Magnús eiga tvö börn sem eru komin á fullorðinsaldur. Sonur þeirra heitir Guðmundur og býr í Reykjavík og Ingibjörg, dóttir þeirra, er búset í Danmörku.

Frumkvöðull í umhverfismálum hjár Reykjavíkurborg

Ellý Katrín hefur brennandi áhuga á umhverfismálum og veit að það skiptir sköpum fyrir lífsgæði næstu kynslóðar að við vinnum vel úr þeim verkefnum sem við stöndum nú frammi fyrir. Hún var frumkvöðull á mörgum sviðum í umhverfismálum hjá Reykjavíkurborg, átti sinn þátt í því að stefna var sett í loftslagsmálum hjá borginni, vinna við græna hagkerfið varð að veruleika, grænar fjárfestinar, svo fátt eitt sé nefnt.

Samstarfsfólk hennar hjá Reykjavíkurborg óskar henni innilega til hamingju með þann heiður sem forseti Íslands hefur sæmt hana með og þakkar henni fyrir samstarfið með stolti.