Ellefu nýir stjórnendur ráðnir til starfa á velferðarsviði

Velferð

Mikill áhugi var á auglýstum stöðum framsýnna og öflugra stjórnenda á velferðarsviði. Stjórendurnir munu meðal annars taka þátt í mótun velferðarþjónustu borgarinnar í samræmi við nýja velferðarstefnu, innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn og farsældarlög félagsmálaráðherra. 

Sjötíu og þrjár umsóknir bárust um tólf stöður leiðtoga á velferðarsviði. Samkvæmt nýju skipuriti þjónustumiðstöðva verða þrjár nýjar deildir settar á laggirnar sem leiðtogarnir munu stýra. 

Leiðtogar á sviði málefna fatlaðs fólks

Í nýju velferðarstefnunni er notendasamráð í öndvegi sem ásamt nýjum reglum um stoð- og stuðningsþjónustu við fullorðið fatlað fólk leggja grunn að nýrri nálgun í þjónustu við íbúa borgarinnar. Leitað var að framsýnum og öflugum leiðtogum í nýjar deildir um málefni fatlaðs fólks. Þeir bera ábyrgð á sérstækri ráðgjöf, stoð- og stuðningsþjónustu og búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk. Deildarstjórar eru næstu yfirmenn forstöðumanna og ráðgjafa í deildinni, veita faglega forystu og leiða umbætur í þjónustunni. 

Í heild bárust 22 umsóknir um störfin. Þau sem ráðin voru í störfin eru: Margrét Steiney Guðnadóttir í sameinaðri Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, Helgi Þór Gunnarsson í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Lára Sigríður Baldursdóttir í Þjónustumiðstöð Breiðholts og Ragna Ragnarsdóttir í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. 

Leiðtogar á sviði virkni og ráðgjafar

Einnig var auglýst eftir leiðtogum í nýjar deildir virkni og ráðgjafar á þjónustumiðstöðvunum fjórum. Þeim er ætlað að veita faglega forystu og leiða umbætur í þjónustunni. Deildirnar verða leiðandi á sviði virkniaðgerða, með áherslu á að styðja einstaklinga til þátttöku í samfélaginu. Horft verður sérstaklega til íbúa af erlendum uppruna og ungs fólks sem er utan skóla eða vinnu. Deildin veitir umfangsmikla ráðgjöf og leggur mat á félagslegar aðstæður einstaklinga með tilliti til stuðnings og virkni. Þétt samstarf verður við virknihús, alþjóðateymi og vettvangs- og ráðgjafarteymi velferðarsviðs auk nýrrar rafrænnar þjónustumiðstöðvar.

Í heild bárust 20 umsóknir um störfin. Þau sem ráðin voru eru: Elín Bryndís Guðmundsdóttir í Þjónustumiðstöð Breiðholts, Margrét Magnúsdóttir í sameinaðri Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness og Ásta Kristín Benediktsdóttir í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Kolbrún Bragadóttir sinnir starfinu í afleysingu í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða en ráðið verður í þá stöðu síðar.

Leiðtogar á sviði barna og fjölskyldumála

Ný velferðarstefna ásamt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna verða lögð til grundvallar í mótun nýrrar nálgunar í þjónustu við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Til þess að leiða þá vinnu var auglýst eftir framsýnum og öflugum leiðtogum í nýjar deildir barna og fjölskyldna á þjónustumiðstöðvunum fjórum. Þeir munu vinna að innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn í öllum borgarhlutum í nánu samstarfi við starfsfólk skóla- og frístundasviðs.

Í heild barst 31 umsókn um störfin. Þau sem ráðin voru eru: Alda Róbertsdóttir í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, Guðrún Ásgeirsdóttir í Þjónustumiðstöð Breiðholts, Helgi Hjartarson í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða og Hulda Sólrún Guðmundsdóttir í sameinaðri Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness. 

Öll ofangreind hafa víðtæka reynslu af velferðarmálum og hafa gegnt mismunandi stjórnunarstöðum innan velferðarsviðs á undanförnum árum.