Eldhúsið á Vitatorgi orðið eitt af umhverfisvænstu eldhúsum landsins

Starfsfólkið á Vitatorgi ásamt Rannveigu Einarsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs. Frá vinstri: Finnbogi, Bjartmar, Nat, Róbert, Rún, Paul, App, Neil, Stefanía, Brynja, Eyjólfur, Noi, Redda, Hildur, Nan og Rannveig. HHS
Starfsfólkið á Vitatorgi fagnar því að hafa lokið fjórða græna skrefinu.

Öllum steinum hefur verið velt við í daglegum rekstri framleiðslueldhúss Reykjavíkurborgar á Vitatorgi, með það að markmiði að gera starfsemina umhverfisvænni. Þar eru búnar til í kringum þúsund máltíðir daglega. Forstöðumaður eldhússins segir ánægju starfsfólks hafa aukist samhliða bættum vinnuferlum og aukinni skilvirkni.

Öllum hreinsiefnum og sápum hefur verið skipt út fyrir umhverfisvottuð efni. Servíettur og annar pappír sem notaður er í eldhúsinu er umhverfisvottaður. Gerðar hafa verið þarfagreiningar og hagrætt í innkaupum, fylgst er með matarsóun og reynt að koma í veg fyrir sóun af hvaða tagi sem er. Allt er þetta hluti af Grænu skrefunum sem starfsstaðir Reykjavíkurborgar vinna að því að uppfylla en eru komnir misjafnlega langt á veg með. Markmiðið er að gera reksturinn umhverfisvænni og hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Framleiðslueldhúsið hefur stigið fjórða og síðasta skrefið og er afrakstur þess að það er nú orðið eitt af umhverfisvænstu eldhúsum landsins, að sögn Hildar Sifjar Hreinsdóttur, verkefnastjóra Grænna skrefa hjá Reykjavíkurborg. „Við höfum lengi hugað að umhverfismálum, meðal annars verið að flokka og mæla matarsóun í nokkur ár, en við höfum ekki gert það á eins systematískan hátt og þetta áður,“ segir Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður framleiðslueldhússins.  

Mikilvægt að sýna gott fordæmi

Eyjólfur segir margt gott hafa fylgt þessari vegferð, ekki síst hafi það haft jákvæð áhrif á starfsandann. „Við höfum verið að bæta hjá okkur vinnuferlana og við það jókst skilvirknin. Starfsánægjan jókst við þetta, enda er þetta verkefni sem allt starfsfólk hefur sameinast um og það hefur jákvæð áhrif á starfsandann.“

Honum þykir mikilvægt að Reykjavíkurborg gangi fram með góðu fordæmi þegar kemur að umhverfisvernd. „Mér finnst skipta mjög miklu máli að við séum öðrum eldhúsum gott fordæmi. Ef við getum ekki verið til fyrirmyndar sjálf getum við varla ætlast til þess af öðrum,“ segir hann.

Starfsfólkið á hrós skilið

Á hverjum degi eru búnar til í kringum þúsund máltíðir í eldhúsi velferðarsviðs á Vitatorgi. Máltíðirnar eru ýmist bornar fram í mötuneytum borgarinnar eða sendar heim að dyrum. Mötuneytin eru til húsa í félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar, í þjónustuíbúðum og í úrræðum fyrir fatlað fólk sem velferðarsvið rekur víðs vegar um borgina. Hildur Sif segir starfsfólk eldhússins eiga hrós skilið fyrir að hafa lokið skrefunum af miklum metnaði. „Ekki aðeins hafa þau klárað fjórða skrefið, heldur tóku þau öll skrefin fjögur í einni lotu. Þetta er eldhús með mjög umfangsmikla starfsemi og því ekki einfalt mál að gera starfsemina þarna vistvæna og uppfylla öll skilyrði Grænna skrefa.“