Loftslagsviðurkenning var veitt í þriðja sinn á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar þann 29. nóvember 2019. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því sem vel er gert í loftslagsmálum og vera hvatning til annarra. EFLA verkfræðistofa hlaut viðurkenninguna að þessu sinni.
Sigurjón Ragnar tók myndir
Dómnefndin átti úr vöndu að ráða úr þeim tilnefningum sem bárust og ljóst að mjög metnaðarfullt starf er í gangi hjá fyrirtækjum og stofnunum. Við matið var horft til ýmissa þátta, einkum til þess árangurs sem þegar hefur náðst við að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. EFLA hefur dregið úr heildarlosun sinni á milli ára þrátt fyrir fjölgun stöðugilda og nam kolefnisspor fyrirtækisins án bindingar 416 tonnum árið 2018 samanborið við 480 tonn árið 2017.
Starfsfólki EFLU hefur einnig tekist að draga úr myndun úrgangs, þ.e. pappírsnotkun, um 400 kg á milli ára. Þá hefur EFLA tekið virkan þátt í þróun umhverfisvænna lausna sem styðja samfélagið, en hlutverk EFLU er að koma fram með lausnir sem stuðla að framförum og efla samfélagið. Umhverfisstjórnun hefur verið samofin starfsemi fyrirtækisins allt frá árinu 2004 þegar það fékk vottun á umhverfisstjórnun skv. ISO 14001 staðlinum og var þar með orðið eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að fá slíka vottun. Markvisst er horft til loftslagsáhrifa í verkefnum og við ráðgjöf og nær umhverfisstjórnun til allrar starfsemi EFLU bæði innanlands og erlendis.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti viðurkenninguna og tók stór hópur starfsmanna, m.a. Evu Yngvadóttur sem tók við blómum og viðurkenningarspjaldi.
Forsaga viðurkenningar
Forsaga loftslagsviðurkenningarinnar er sú að Festa og Reykjavíkurborg hófu árið 2015 samstarf með rúmlega 100 fyrirtækjum og stofnunum, þar á meðal EFLU, um sameiginlega loftslagsyfirlýsingu sem afhent var á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna, COP21, í París síðar það sama ár. Yfirlýsingin fól í sér skuldbindingu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, draga úr myndun úrgangs og mæla árangurinn.
Í framhaldi af undirritun yfirlýsingarinnar var unnið að kynningu til nýrra fyrirtækja og stofnana, fræðslustarfi til þátttakenda og þróun á aðferðum til að auðvelda þátttakendum að meta gróðurhúsaáhrif sín. Samstarfið skilaði sér í bættum aðferðum fyrir loftslagsmarkmið fyrirtækja og stofnana. Aðferðin nefnist Loftslagsmælir Festu og stendur hún öllum aðilum í rekstri til boða, bæði ríki og sveitarfélögum. Í samstarfinu var gert ráð fyrir fræðsluviðburðum og málþingum og hefur loftslagsfundur Festu og Reykjavíkurborgar verið haldinn árlega frá árinu 2016.
Dómnefnd
Í dómnefnd sátu Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs, Erna Eiríksdóttir sem situr í stjórn Festu og Lára Jóhannsdóttir prófessor við Viðskiptadeild Háskóla Íslands, Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar var dómnefndinni til ráðgjafar og starfsmaður dómnefndar var Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.
Fyrri viðurkenningar
Loftslagsviðurkenningin var veitt í fyrsta sinn 2017. Eftirtaldir hafa hlotið viðurkenninguna:
2018: Klappir Grænar Lausnir hf.
2017: HB Grandi. Auk þess hlaut vefurinn loftslag.is fræðslu- og upplýsingaviðurkenningu vegna loftslagsmála og ISAVIA hlaut hvatningarviðurkenningu.