Dýraþjónusta Reykjavíkurborgar á einum stað

""

Borgarráð hefur samþykkt að starfsemi borgarinnar vegna þjónustu við gæludýr og villt og hálfvillt dýr verði á einum stað undir nafninu Dýraþjónusta Reykjavíkur (DÝR).

Ný þjónusta, DÝR, verður með starfsstöð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sem heyrir undir íþrótta- og tómstundasvið borgarinnar. Þetta þýðir m.a. að Hundaeftirlit Reykjavíkur verður lagt niður og málefni katta verða einnig flutt frá meindýraeftirliti til DÝR.

Auka á fræðslu- og kynningarstarf um dýrahald í þéttbýli og velferð dýra. Einnig á að huga að dýraumferð við hönnun göngu- og hjólastíga.

Endurskoða á samþykkt um dýrahald og koma skráningum vegna þeirra á rafrænt form. Þá verður gert ráð fyrir því að gjaldskrá vegna skráningu hunda muni lækka vegna breyttra aðferða við skráningu.

Gert er ráð fyrir uppbyggingu hundagerða fyrir átta milljónir króna, þar af fara tvær milljónir króna í  leiktæki og sex milljónir króna í stækkun og bætingu hundasvæða borgarinnar.

Niðurstaða starfshóps, sem vann að tillögum að verkaskiptingu ásamt innleiðingaráætlun, er sú að með því að færa alla starfsemi yfir til Fjölskyldu- og húsdýragarðs verði öll þjónustu við dýrin hagkvæmari og einfaldari.

Þess er vænst að með breytingunum fjölgi skráningum dýra með breyttu verklagi. Gert er ráð fyrir að  fjölgun skráninga taki tíma og því þarf viðbótarfjárheimild. Beinn kostnaðarauki vegna breytinga er áætlaður sex milljónir króna vegna nýs styrktarsjóðs og fræðslu- og kynningarmála. Félagasamtök og aðrir sem láta sig dýravelferð máli skipta geta sótt um styrki í nýjan styrktarsjóð.

Að lokum er rétt að benda á málefni stærri húsdýra líkt og hesta, sauðfjár og nautgripa verða áfram á umhverfis- og skipulagssviði.