Draumar rætast í samstarfi

Skóli og frístund

Kona þrykkir grafík á taupoka.

Samtals bárust 40 umsóknir í þróunar- og nýsköpunarsjóð vegna verkefna í anda nýrrar menntastefnu, sem kallast Látum draumana rætast. Óskað var styrkja fyrir um 200 milljónir króna en til úthlutunar eru 50 milljónir.

Úthlutunarnefndar beið það vandasama verkefni að leggja til hverjir fengju styrk að þessu sinni. Neðantalin verkefni fá styrk úr þróunar- og nýsköpunarsjóðnum Látum draumana rætast í ár. Samtals fá 18 verkefni 50 milljónir.

Tvö verkefni urðu fyrir valinu, sem eru samstarfsverkefni leikskóla, og fá þau 5.5 milljónir króna, Þrjú verkefni, sem eru samstarfsverkefni grunnskóla, fá 14.2 milljónir króna, Fimm verkefni, sem eru samstarfsverkefni frístundastarfs, fá samtals 8.1 mkr. og átta samstarfsverkefni leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs fái styrki að upphæð 22,2 milljónir króna.

Tillögurnar eru byggðar á reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs vegna styrkja í B hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs ,,Látum draumana rætast“.

Hæsta  styrkinn fær Fab lab verkefnið Skapandi námssamfélag í Breiðholti eða 6,5 mkr. Verkefnið er samstarfsverkefni Fab Lab Reykjavík, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, Fellaskóla, Hólabrekkuskóla, Seljaskóla, Háskóla Íslands, Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, RG Menntaráðgjafar og Vísindasmiðju HÍ.

Austur-Vestur, sem eru sköpunar og tæknismiðjur í grunnskólastarfi, fær 5,7 mkr. Verkefnið er samstarfsverkefni Ingunnarskóla, Vesturbæjarskóla, Selásskóla og Háskóla Íslands.

Það þarf heilt þorp fær 5,5 mkr. Verkefnið er samstarf um félagsfærni og sjálfseflingu og samvinna leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í Bakkahverfinu í Breiðholti.

Leikur, styðjandi samskipti og lærdómssamfélag, sem er yfirskrift samstarfsverkefnis sex leikskóla sem dreifast um borgina og unnið er í samstarfi við Rannung, fær styrk að upphæð 5 mkr.

Skólafélagsfærni PEERS er verkefni með þátttöku nokkurra grunnskóla í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum, þjónustumiðstöð hverfisins ásamt einni félagsmiðstöð og einu frístundaheimili og fær það 4,mkr.

Rafíþróttir í 110 og 113 fær 3,5 mkr. en það verkefni sem er samstarfsverkefni frístundamiðstöðvarinnar Ársels, íþróttafélagsins Fylkis, þjónustumiðstöðvar Árbæjar og grunnskólanna í Árbæ, Grafarholti, Norðlingaholti og Úlfarsárdal.

Meðal stærri verkefna má að lokum nefna Útivist og útinám í Grafarvoginum með þátttöku allra frístundaheimila í hverfinu sem fær þrjár milljónir.

Auk ofangreindra fá ellefu verkefni lægri styrki en öll eru þau þróunar- og nýsköpunarverkefni sem stuðla að því að draumar reykvískra barna rætist.

  • Tjörnin, Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Lögreglan, Barnavernd, Kringlumýri, Ársel, Gufunesbær, Miðberg, allar félagsmiðstöðvar í Reykjavík. Heiti verkefnis: Föruneyti félagsmiðstöðvar. Kr. 2.500.000.
  • Foldaskóli, Hamraskóli, Húsaskóli, Háskóli Íslands, Simbað, Regnbogaland, Kastali. Heiti verkefnis: Markviss íslenskukennsla fjöltyngdra nemenda með áherslu á ríkan orðaforða, sterka sjálfsmynd og félagsfærni í leik og starfi. Kr. 2.000.000.
  • Tjörnin, 100 og 1, Austurbæjarskóli, Háskóli Íslands. Heiti verkefnis: Draumasviðið, tækifæri sköpunar. Kr. 2.000.000.
  • Klettaskóli. Heiti verkefnis: Lausnir varðandi tjáskipti nemenda í Klettaskóla. Kr. 2.000.000.
  • Tjörnin, Gleðibankinn, Hlíðaskóli. Heiti verkefnis: Rafíþróttaver. Kr. 2.000.000.
  • Hagaskóli, Laugalækjarskóli, Frosti, Háskóli Íslands. Heiti verkefnis: Allir með – valnámskeið. Kr. 1.800.000.
  • Kringlumýri, Réttarholtsskóli, Fossvogsskóli, Breiðagerðisskóli, Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, íþróttafélagið Víkingur, Skátafélagið Garðbúar, foreldrafélag Réttarholtsskóla, foreldrafélag Fossvogsskóla, foreldrafélag Breiðagerðisskóla. Heiti verkefnis: Svefn, orkudrykkir og rafrettur. Kr. 1.400.000.
  • Undraland, Tjörnin, Háskóli Íslands. Heiti verkefnis: Efling siðfræðikennslu í frístundastarfi. Kr. 1.100.000.
  • Miðberg, Gufunesbær, Kringlumýri, Tjörnin, Öryrkjabandalag Íslands. Heiti verkefnis: Ungmennaráð sértækra félagsmiðstöðva í Reykjavík. Kr. 1.000.000.
  • Kringlumýri, Miðberg, Háskóli Íslands, Vinnuskólinn. Heiti verkefnis: Mikilvægi gagnreyndra aðferðar í félagsmiðstöðvastarfi. Kr. 500.000
  • Bjartahlíð, Háskóli Íslands, Stakkaborg. Heiti verkefnis: Vísindaleiki - Varmi og hitastig. Kr. 500.000.