Draugar, nornir og beinagrindur í Miðbergi

Skóli og frístund

""

Draugar og nornir mættu þeim sem komu á Hrekkjarvöku í Miðbergi í dag en þar mátti hlusta á draugasögur, fara á nornakaffihús og skríða í gegnum draugagöngin.

Mikill spenningar var meðal gesta á Hrekkjarvökunni sem starfsmenn Miðbergs stóðu fyrir í haustfríinu. Boðið var upp á andlitsmálningu til að fullkomna hins ýmsu gervi en þarna voru mættar til leiks ofurhetjur ýmsar, nornir, vofur og prinsessur. Sannkölluð draugastemming ríkti og var hálfmyrkvað í frístundamiðstöðinni þar sem gestir reyndu sig á ýmsum hugrekkisþrautum. 

Í almyrkvuðum sal voru sagðar draugasögur, börnin fengu að "þreifa á heila" og sumum skall illilega skelkur í bringu í draugagöngunum. Síðast en ekki síst gátu gestir gætt sér á nornaveitingum, grænum vöfflum og göróttum drykkjum og var augljóst að allir, börn og fullorðnir,  höfðu nokkuð gaman af.