Deiliskipulag fyrir brú yfir Fossvog auglýst

Samgöngur Skipulagsmál

""

Ákveðið hefur verið að auglýsa deiliskipulag að nýrri brú yfir Fossvog.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að heimila að tillaga að deiliskipulagi vegna lagningar brúar yfir Fossvog verði auglýst. Tillagan gerir ráð fyrir lagningu vegar fyrir almenningssamgöngur og að lagður verði hjóla- og göngustígar sem tengja saman Reykjavík og Kópavog með brú yfir Fossvog. Þá gerir tillagan ráð fyrir landfyllingu undir sitt hvorum brúarendanum. Ekki er búið að hanna brúna en allar skipulagsáætlanir hafa ætíð gert ráð fyrir að brúin verði eingöngu fyrir vistvæna ferðamáta; almenningssamgöngur, Borgarlínu, strætó og sjúkraflutninga en þar verði einnig greiðar samgöngur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í samræmi við  Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 – 2030 og Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024.

Brúin verður mikil samgöngubót fyrir bæði íbúa Kópavogs og Reykjavíkur og hafa sveitarfélögin tvö unnið að deiliskipulaginu í sameiningu. Kópavogur hefur þegar auglýst tillöguna. Áformað er að brúin liggi frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar, vestan Nauthólsvíkur, yfir á norðausturhluta Kársnestáar en þar eru 340 metrar á milli bakka.

Sjá fundargerð borgarráðs