Deiliskipulag fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal í auglýsingu

Skipulagsmál

""

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur þann 3. mars 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal. Skipulagið byggir á grunni eldra deiliskipulags sem var samþykkt árið 1994 og verður fellt úr gildi þegar nýja skipulagið hefur öðlast staðfestingu.  Í tillögunni eru afmörkuð og skilgreind hverfisverndarsvæði í dalnum, gerð grein fyrir helstu göngu- og hjólastígum ásamt nýjum þverunum yfir Elliðaárnar og skilgreind helstu útivistar- og áningarstaðir. Nánar um tillöguna vísast til kynningargagna.

Mynd/skýringarmynd

Tillöguna má einnig nálgast á skjá og tölvu í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:20 - 16:15 frá 16. mars 2020 til og með 29. apríl 2020 (framlengt til 18. maí). Einnig má sjá tillöguna á vefnum, www.reykjavik.is: skipulag í kynningu. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til skipulagsfulltrúa eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 29. apríl 2020. Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti.

Elliðaárdalurinn er mikilvægt útivistar- og náttúrusvæði í Reykjavík með ríka sögu og sterka ímynd meðal borgarbúa og á undanförnum árum hefur vægi og gildi dalsins innan borgarinnar aukist og fleiri hópar og einstaklingar nýta Elliðaárdalinn til útivistar, afþreyingar og sem samgönguleið. Töluvert samráð við helstu hagsmunaaðila á svæðinu hefur þegar átt sér stað um tillögugerðina. Tillagan felur í sér meiri vernd og betra stígakerfi.

Viðfangsefni og markmið deiliskipulagsvinnunnar núna er að:

  • Skilgreina aðalleiðir notendahópa um svæðið
  • Bæta tengingar göngu- og hjólreiða; meta stígakerfi og mögulega þörf á nýjum stígum og brúm yfir árnar.
  • Meta og endurskoða afmörkun hverfisverndarsvæðis og skilgreina í skipulagi.
  • Vinna ítarlega náttúrufarsúttekt, þar með talið kortleggja jarðminjar, lykilvistgerðir, gróðurlendi og búsvæði dýra, einkum fugla. Meta verndargildi náttúruminja og leggja fram tillögur að verndarsvæðum.
  • Vinna heildstæða fornleifaskýrslu og húsakönnun fyrir dalinn samhliða skipulagsvinnunni.
  • Skilgreina rjóður og áningastaði
  • Vinna með Orkuveitunni að ákvörðun um hreinsun ofanvatns úr götum áður en því er hleypt í árnar
  • Taka saman upplýsingar um veiðistaði og aðgengi að þeim.

Elliðaárdalurinn hefur fjölmarga kosti og er vinsælt útivistarsvæði og áningarstaður, hann er mikilvægt fuglasvæði í borginni. Hólminn ofan stíflu er t.d. náttúrulega friðaður fyrir fugla. Elsti skógurinn í dalnum er frá því um 1950. Í dalnum er að finna fossa, skessukatla og tjarnir og náttúruminjar eins og hraunreipi, grettistök og grágrýtisurðir. Töluvert er um sögulegar minjar, friðaðar fornminjar, herminjar, ofl.

Leiðarljósin í deiliskipulaginu skiptast af þessum sökum í þrjá flokka:

  • Náttúra og lífríki
  • Útivist og upplifun
  • Menning og arfleið

Varðandi hverfisvernd koma nokkrir kostir til greina, helst er stungið upp á kosti B (sjá tengil) um að hverfisvernd taki til svæða með hærra verndargildi, í þeim valkosti eru svæðin ármegin við stíganamörkin á verndarsvæðinu og allt svæði á milli stíganna.

Gert er ráð fyrir samfelldum hjólastíg upp allan dalinn að sunnan- og vestanverðu og að gerðar verði nýjar göngu- og hjólabrýr á völdum stöðum til að greiða leiðir þvert yfir dalinn.

Tenglar

Elliðaárdalur - tillaga að deiliskipulags borgargarðs í Elliðaárdal