Dansa burtu COVID-19 drungann

Covid-19 Velferð

""

Á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum hefur starfsfólk og íbúar gefið heimsfaraldrinum langt nef með því að dansa öllum stundum í stað þess að leyfa leiðanum að ná yfirhöndinni. Í síðustu viku kom stór hópur starfsfólks saman í garðinum og dansaði fyrir íbúana.

Allt frá því að fyrsta bylgja COVID-19 skall á hafa heimsóknir á hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði verið takmarkaðar, líkt og á við um alla þá staði þar sem fólk í áhættuhópum býr. Strax þá fór starfsfólk að leita fjölbreyttra leiða til að stytta íbúum, sem lítið gátu hitt ættingja sína og vini, stundirnar. Fljótlega varð dansinn ofan á, enda sýndi sig fljótt að hann vakti gleði meðal íbúa og starfsfólks. „Í fyrstu bylgjunni fórum við í leik sem við kölluðum Dropavisjón. Viðdönsuðum við Eurovision-lagið okkar með íbúum og tókum upp myndbönd. Það tókst ótrúlega vel og var skemmtilegt. Nú í þessari bylgju höfum við verið að dansa á deildunum líka með íbúum og fá þá með okkur í dansinn,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, forstöðukona Droplaugarstaða. 

Þegar jólin nálguðust og ljóst var að skorður á heimsóknum yrðu enn við lýði alla aðventuna fannst starfsfólki ástæða til að taka dansinn skrefinu lengra. „Þá datt okkur í hug aðnú væri kannski kominn tími til að dansa frekar fyrir íbúana. Við ákváðum að dansa við Jerúsalema, sem margir eru að gera um allan heim, og gera viðburð úr þessu. Íbúar höfðu mjög gaman af æfingunum og tóku sumir þátt í þeim, þetta skapaði gleði í húsinu og svo kom auðvitað stóra stundin þar sem við komum saman í garðinum og dönsuðum undir orðunum: „Dönsum veiruna burt!“. Svo höfðum við jólahátíð á öllum hæðum eftir dansinn og allir fengu heitt súkkulaði með rjóma, smákökur og konfekt. Þetta var mjög skemmtilegt. Það er nauðsynlegt að gera eitthvað annað en við erum vön að gera á svona tímum,“ segir Jórunn. 

Smelltu hér til að skoða myndbandið af því þegar starfsfólk Droplaugarstaða dansar veiruna burt.