Dagur í nafni forvarna í Hagaskóla

Skóli og frístund Velferð

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti 9. bekkinga í Hagaskóla í tilefni forvarnardags og átti gott spjall við þá um forvarnir, skólastarfið og breytingar sem orðið hafa milli kynslóða.

Eins og fram hefur komið er dagurinn í ár helgaður rafrettum og lyfjanotkun. Notkun rafretta hefur færst í vöxt meðal íslenskra unglinga og veldur þessi aukna neysla áhyggjum þar sem ekki er vitað um áhrif þess á heilsu til lengri tíma. Rannsóknir sýna að þeir sem nota rafrettur eru mun líklegri en aðrir til að byrja að nota venjulegar og hættulegri sígarettur. 

Flestir hafa orðið varir við fjölmiðlaumræðu um lyfjamisnotkun. Ungmenni hafa misst lífið vegna slíkrar misnotkunar og er nú orðið mjög aðkallandi að sporna gegn þessari vá. Dagur lagði þunga áherslu á orð sín um hættu lyfja því unglingar þurfa að vita að það getur verið lífshættulegt að taka inn einhverjar tilfallandi lyf sem ætluð eru öðrum. 

Nemendur um allt land fengu fræðslu m.a. um gildi íþrótta og samveru við foreldra í forvarnarstarfi. Í tilefni dagsins er haldin ljósmyndasamkeppni þar sem vegleg verðlaun eru í boði. Nemendum sem fæddir eru á árunum 2002 – 2004, gefst kostur á að taka þátt í keppninni á Instagram sem kynnt verður á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #forvarnardagur18. Lokað verður fyrir leikinn þann 15. október nk. og verðlaun fyrir þrjár bestu myndirnar verða afhent við hátíðlega athöfn að Bessastöðum síðar á árinu.