Dagur gegn einelti

Margrét Snæbjörnsdóttir deildarstjóri í Hlíðaskóla

Til að lyfta upp og leggja áherslu á árlegan dag gegn einelti gefur skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar öllum grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum eintök af bókinni Ferðalagið eftir Jakob Ómarsson.

Tækifæri fyrir börn að styrkja ímynd sína

Ferðalagið er styrkleikabók sem gefur börnum tækifæri til þess að ígrunda og styrkja sjálfsmynd sína, vinna með samkennd, hrós, hvatningu og jákvæð samskipti. Vonin er að bókin sé góð viðbót í verkfærakistu starfsfólks grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva í vinnu með félagsfærni og samskipti barna og ungmenna.

Eins og alltaf vonar skóla- og frístundasvið að dagur gegn einelti verði góð áminning til allra sem vinna með eða í kringum börn til þess að setja málefnið á oddinn, rifja upp verkferla og vera á varðbergi gagnvart neikvæðum samskiptum í sínu nærumhverfi.

Kemur okkur öllum við

Einelti kemur okkur öllum við eins og höfundur bókarinnar leggur áherslu á. Hann segir bókina nýtast vel sem kennslugagn þó hún hafi upphaflega verið hugsuð til að nýta í samverustund barna og foreldra til að efla samskiptahæfni, styrkleika og æfing í að setja sig í spor annarra. Þó bókin sé skrifuð fyrir börn er hún jafn viðeigandi fyrir ungmenni og líka fullorðna.

Fleira efni hefur verið gefið út síðustu ár sem nýtist í forvarnarvinnu til að stuðla að vinsamlegu samfélagi. Til viðbótar við leiðbeiningar með bókinni eru þar myndbönd sem Vanda Sigurgeirsdóttir gerði fyrir skóla- og frístundasvið fyrir tveimur árum, fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og líka fyrir foreldra. Hér geta áhugasamir, sem vonandi eru margir, kynnt sér efnið.

Myndasafn