Dagsetrið Vin verður rekið í óbreyttri mynd út þetta ár

Mynd af dagsetrinu Vin

Dagsetrið Vin verður rekið í óbreyttri mynd, í það minnsta út þetta ár. Þetta var ákveðið á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar í dag.

Á fundinum var farið í saumana á þeim hagræðingar- og umbótatillögum sem falla undir velferðarsvið og samþykktar voru á fundi borgarstjórnar 6. desember síðastliðnum.

Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir og er helsta hlutverk þess að draga úr félagslegri einangrun og skapa vinalegt andrúmsloft fyrir gesti þess. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstri Vinjar dagseturs í júlí 2021 en Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hafði rekið það áður með samningi við Reykjavíkurborg.

„Það hefur aldrei staðið til að leggja starfsemi Vinjar niður án þess að tryggja aðrar útfærslur á þjónustunni. Við leggjum mikla áherslu á að skerða ekki lífs­gæði þess hóps sem sæk­ir Vin,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs.

Engar breytingar verði gerðar á starfsemi Vinjar nema með fullri aðkomu notenda, hagsmunaaðila og fagfólks. Ákvörðun velferðarráðs í dag miði að því að skapa ró með starfsemina út árið 2023 og svigrúm til samráðs um aðrar lausnir.