Covid-smit hjá starfsmönnum tveggja íbúðakjarna fyrir fatlað fólk

""

Tveir starfsmenn íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Reykjavík hafa greinst með Covid-19. Gripið hefur verið til nauðsynlegra aðgerða með það að leiðarljósi að hefta frekara smit, án þess að skerða þjónustu við íbúa.

Covid-smit hafa komið upp hjá tveimur starfsmönnum íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Breiðholti og Grafarvogi. Báðir starfa þeir náið með einstaklingum sem þurfa sólarhringsþjónustu. 

Aðgerðaáætlun vegna smitanna hefur verið unnin í nánu samstarfi við smitrakningateymi Almannavarna og Embætti landlæknis en neyðarstjórn velferðarsviðs hélt samráðsfund í morgun þar sem línur voru lagðar um næstu skref. 

Tryggt verður að íbúar fái áfram þá þjónustu og stuðning sem þeir þurfa á að halda við sitt daglega líf. Íbúar kjarnanna tveggja búa allir í eigin íbúðum og fá því alla nauðsynlega þjónustu inn á sín heimili.

Í íbúðakjarnanum í Grafarvogi þurfa sex starfsmenn að fara í sóttkví og sex í Breiðholti. Unnið er að því að manna vaktirnar með öðru starfsfólki velferðarsviðs. Báðir íbúarnir sem fengu þjónustu viðkomandi starfsmanna eru komnir í sóttkví. Þeir fara í sýnatöku í dag og fylgst verður náið með líðan þeirra. 

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar rekur um 70 heimili og dvalarstaði þar sem haldið er úti órofinni þjónustu allan sólarhringinn. 

Allar frekari upplýsingar veitir Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi velferðarsviðs, í síma 821 4241.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Í upphaflegri útgáfu hennar kom fram að allt að sex starfsmenn íbúðakjarnans í Grafarvogi og allt að 20 starfsmenn íbúðakjarnans í Breiðholti þyrftu að fara í sóttkví. Eftir vinnu smitrakningateymis hefur hins vegar komið í ljós að sjö starfsmenn í Grafarvogi og fimm starfsmenn í Breiðholti fara í sóttkví.