BSÍ breytist í alhliða samgöngumiðstöð

Framkvæmdir Mannlíf

""

Efnt verður til samkeppni um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar þar sem BSÍ er núna og á nærliggjandi svæði. Gert er ráð fyrir að samgöngumiðstöðin taki við af Hlemmi sem helsta tímajöfnunarstöð Strætó, auk þess að vera endastöð áætlanaleiða út á land og flugrútu.

Borgarráð ákvað á fundi sínum í gær að stofna starfshóp til að fylgja þessu verkefni eftir og sitja í honum fulltrúar frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, skipulagsfulltrúa, samgöngustjóra og Strætó bs.

Starfshópnum er falið að rýna núverandi gögn ásamt því að uppfæra og bæta við nýjum upplýsingum sem komið hafa fram á undanförnum misserum. Þá skal starfshópurinn greina áhrif borgarlínu á verkefnið og leiðakerfi Strætó, tengingu borgarlínu við samgöngumiðstöð, tækifæri ferðaþjónustunnar og margt fleira.

Gert er ráð fyrir að tvær samkeppnir verði haldnar um verkefnið. Í þeirri fyrri verður keppt um útfærslu á deiliskipulagi alls reitsins (U-reitur), en sú síðari afmarkast við hönnun samgöngumiðstöðvarinnar og nánasta umhverfis hennar.  Á síðari stigum verður skipuð sérstök dómnefnd um hönnunarsamkeppnina.

Hugmyndin að breyta BSÍ í alhliða samgöngumiðstöð er ekki ný af nálinni og hefur verið unnið að margvíslegum undirbúningi frá árinu 2012. Fyrir liggur að flutningur tímajöfnunar frá Hlemmi yfir á BSÍ krefjist ekki mikilla breytinga.

Endurbætur á umhverfi BSÍ

Borgarráð samþykkti í gær tvær aðrar tillögur sem tengjast Vatnsmýrarvegi 10.

Ráðist verður í endurbætur á umhverfi BSÍ og samþykkti borgarráð skipan starfshóps sem falið er að gera tillögur að þeim. Skoða á tilhögun bílastæða og mögulega gjaldskyldu á reitnum, lóðarfrágang, göngustíga og opin svæði. Fasteignin Vatnsmýrarvegur 10 er í eigu Reykjavíkurborgar en samkvæmt leigusamningi ber leigutaki ábyrgð á húsinu að öllu leyti. Haft verður samráð við leigutaka um mögulegar endurbætur á húsinu.

Bensínafgreiðsla og sambyggð skrifstofa bílaleigu víkur

Gengið hefur verið frá samkomulagi við Skeljung að rífa afgreiðsluskála bensínafgreiðslu og sambyggða skrifstofu bílaleigu, sem leyfð hafði verið tímabundið.  Þá mun félagið einnig fjarlægja bensíntanka úr jörðu og skila ómengaðri lóð.  Verði ákveðið í deiliskipulagi að hafa orkusölu á svokölluðum U-reit þar sem seldir yrðu orkugjafar svo sem lífeldsneyti, metan, vetni eða rafmagn, fær Skeljungur forkaupsrétt byggingarréttar á markaðsverði.  Borgarráð staðfesti í gær samkomulagið við Skeljung.

Tengt efni:

  1. Leiðakerfisbreytingar í Reykjavík vegna alhliða samgöngumiðstöðvar á U-reit, skýrsla stýrihóps, dags. janúar 2016.
  2. Samgöngumiðstöð og önnur byggð á U-reit, drög að keppnislýsingu til dómnefndar 2014-05-16.
  3. Samgöngumiðstöð á U-reit - Áframhald verkefnis haust 2017, minnisblað frá verkfræðistofunni Mannviti dags. 11.08.2017.