Brugðist við olíumengun í Elliðaánum

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fékk tilkynningu um mengun í Elliðaánum undir hádegi í dag. Olía barst út í árnar úr frárennsli fyrir ofan stíflu Árbæjarmegin í Elliðaárdalnum. Brugðist var hratt við og fór starfsfólk reksturs og umhirðu Reykjavíkurborgar strax á staðinn með mengunarvarnarbúnað. Búið er að loka fyrir eins og hægt er til að koma í veg fyrir að frekari mengun berist í árnar og verður skipt aftur um mengunarvarnarbúnað á morgun.

Heilbrigðiseftirlitið hefur verið á staðnum í allan dag og kannað umhverfið. Unnið er að því að finna uppruna mengunarinnar. Veitur hafa veitt aðstoð í leitinni að upprunanum en sú leit hefur enn engan árangur borið. Ástæðan gæti verið sú að einhverjir dagar séu síðan olían komst í kerfið en hún sé ekki að skila sér fyrr en nú því það hefur verið lítið rennsli úr kerfinu vegna lítillar úrkomu að undanförnu.

Brýnt er fyrir fólki að setja ekki olíu í niðurföll

Afar mikilvægt er að koma í veg fyrir að mengun berist í árnar og hafi áhrif á viðkvæmt lífríki þeirra. Ekki skal hella neinum efnum í niðurföll svo sem málningu, þynni, fitu eða olíu. Spilliefnum skal skila á endurvinnslustöðvar.

Leki olía af ökutæki eða vinnutæki, skal tafarlaust láta vita til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eða Slökkviliðs til að koma í veg fyrir að mengun berist víðar. Ef einhver hefur ábendingar um uppruna lekans sem kom nánar tiltekið úr frárennsli fyrir neðan Árbæjarkirkjusvæðið skal vinsamlegast hafa samband við Heilbrigðiseftirlitið.