Brúa bilið milli mál- og menningarhópa

Mannréttindi

Hópur sendiherra ásamt starfsfólki í Þjónustumiðstöð, fulltrúum úr fjölmenningarráði og borgarstjóra. Frá vinstri; Renata Emilson Pesková, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Dagur B. Eggertsson, Sara Björg Sigurðardóttir, Sabit Veselaj, Neringa Eidukienė, Patienc
Hópur sendiherra ásamt starfsfólki í Þjónustumiðstöð, fulltrúum úr fjölmenningarráði og borgarstjóra í borgarstjórnarsal Ráðhússins

Sendiherrar íbúa af erlendum uppruna sem starfa í Breiðholti hittust í borgarstjórnarsal, í gær 13. desember, ásamt borgarstjóra og fulltrúum í fjölmenningarráði. Tilefnið var að ræða stöðuna í málefnum fólks af erlendum uppruna og árangur af sendiherraverkefni í Breiðholtshverfinu.

Verkefnið er samfélagsverkefni mismunandi mál-, menningar- og/eða þjóðfélagshópa og Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og er vilji til að virkja lýðræði, efla upplýsingaflæði og bæta tengslanet innan hverfisins. Sendiherrar hafa það hlutverk að brúa bilið milli ólíkra þjóða og menningarheima í hverfinu. Þeir gefa þjónustumiðstöð Breiðholts ráð og álit frá sjónarmiði innflytjenda auk þess að miðla upplýsingum til ólíkra hópa. Sendiherrarnir hafa greiðan aðgang að hverfistjóra, starfsfólki ýmissa annarra stofnanna og/eða félaga sem fara með hlutverk hvað varðar þjónustu og hverfisþróun.

Markmið verkefnisins er að skapa vettvang fyrir samstarfi við íbúa af erlendum uppruna innan hverfa og auka þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi. Einnig er þetta vettvangur þar sem gefst tækifæri til að koma á framfæri skoðunum og hugmyndum íbúa af erlendum uppruna. Með samvinnu við sendiherra gefst líka þjónustumiðstöðvum tækifæri til að koma ýmsum upplýsingum um þjónustuna á framfæri.

Á fundinum var m.a. rætt um mikilvægi þess að eiga samráð og mynda traust milli hópa. Með samráðinu skapast mikil þekking hjá öllum aðilum, sendiherrum, íbúum og starfsfólki þjónustumiðstöðvarinnar um leiðir til að mæta þörfum fólks af ólíkum uppruna og bregðast við þeim. Það var samróma álit allra á fundinum að starf sendiherra brúar bil milli ólíkra hópa og tengir það saman. Að lokum var umræða um að færa verkefnið út í fleiri hverfi í borginni.

Starfandi sendiherrar á þessu ári eru Sabit Veselaj, sem er albönskumælandi, Karim Askari, sem talar arabísku, Maria Sastre spænskumælandi, Pidsinee Dísa Einarsdóttir, sem talar tælensku, Emilía Mlynska og Anna Radacz en þær eru pólskumælandi, Mirabela Blaga og Fer Biamin Alin, sem bæði tala rúmensku, Neringa Eidukiené, sem talar litháísku og að lokum Innocentia Fiati Friðgeirsson og Patience Afrah Antwi, sem brúa bilið fyrir þá sem koma frá Gana, Nígeríu og Kenía.