Bríetartún, Katrínartún, Guðrúnartún og Þórunnartún eru ný götuheiti í Reykjavík
Fjórar götur í Reykjavík hafa fengið ný heiti og í morgun var verið að merkja Bríetartún, en svo heitir nú austurhluti Skúlagötu frá Snorrabraut að Höfðatúni, sem eftir breytingu heitir Katrínartún. Skúlatún hefur fengið heitið Þórunnartún og Sætún ber nafnið Guðrúnartún. Skilti með eldri götuheitum verða áfram til 2014 þannig að vegfarendur hafa rúman tíma til að venjast nýjum nöfnum.
Göturnar er nefndar eftir fyrstu konunum sem tóku sæti í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1908, en það ár buðu konur í Reykjavík fram sérstakan kvennalista, sem vann stórsigur og kom öllum sínum fulltrúum að. Konurnar fjórar, sem settust fyrstar kvenna í bæjarstjórn Reykjavíkur, voru Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Katrín Magnússon og Þórunn Jónassen.
Meðal baráttumála þessara kvenna voru sundkennsla fyrir bæði kynin og leikvellir fyrir börn. Fyrsta leikvellinum var markað svæði á Túngötu en síðar á Grettisgötu. Bríet Bjarnhéðinsdóttir beitti sér fyrir því í bæjarstjórn að börn fengju mat í skólanum, en vegna mikillar fátæktar voru mörg börn vannærð. Matargjafir komust á og var þeim haldið áfram af og til fram á fjórða áratuginn. Knud Ziemsen, síðar borgarstjóri, barðist fyrir því að keyptur yrði valtari og studdi Bríet kaupin, en hún var þá í veganefnd. Valtarinn kom til landsins árið 1912 og var brátt nefndur Bríet Knútsdóttir í höfuðið á þeim Knud og Bríeti. Valtarinn var fluttur á Árbæjarsafn árið 1961.
Tillaga að breytingunum var samþykkt í borgarráði 13. október 2010 og voru nafngiftirnar í kjölfarið kynntar hagsmunaaðilum og þeim gefið svigrúm til andmæla. Reykjavíkurborg mætir þörfum íbúa og fyrirtækja við framantaldar götur t.d. með því að annast og kosta breytingu í þjóðskrá, þinglýsingabókum, fyrirtækjaskrá og í símaskrá. Reykjavíkurborg mun einnig á sinn kostnað annast breytingu á skiltum með götunúmerum sem gera þarf í Bríetartúni. Notuð verða hefðbundin hvít og blá númeraskilti, nema þar sem eigendur hafa valið aðra útfærslu. Húsnúmer við aðrar götur verða óbreytt.
Ítarefni: