Breytt ljósastýring á Hringbraut við Bræðraborgarstíg

staðsetning

Nú er verið að endurnýja umferðarljósabúnað á nokkrum gatnamótum við Hringbraut eins og kynnt var í október. Samhliða þeirri framkvæmd er ljósastýring aðlöguð að þeirri umferð sem er í dag. Á gatnamótum Hringbrautar og Bræðraborgarstígs kviknar samtímis á grænu gönguljósi yfir Hringbraut og á grænu ljósi fyrir umferð ökutækja frá Bræðraborgarstíg. Markmiðið er að stytta biðtímann fyrir gangandi vegfarendur. Til stendur að setja upp gult blikkandi ljós til að vekja athygli ökumanna sem aka frá Bræðraborgarstíg á umferð gangandi vegfarenda.

Miðlæg stýritölva umferðarljósa

Endurnýjun á umferðarljósabúnaði stendur yfir á gatnamótum við Hringbraut við Hofsvallagötu, Bræðraborgarstíg og Framnesveg. Um er að ræða tímabæra framkvæmd og mun nýr búnaður tengjast miðlægri stýritölvu umferðarljósa. 

Tenging við stýritölvuna mun stytta viðbragðstíma við bilunum og hefur forgangur fyrir neyðarbíla og strætó verið virkjaður. Val á ljósastillingum mun miðast við umferðarmagn.

Hringbraut við Bræðraborgarstíg

Á Bræðraborgarstíg virkar ljósastýringin nú þannig að grænt ljós logar samtímis fyrir umferð gangandi yfir Hringbraut og fyrir ökutæki sem koma af Bræðraborgarstíg.

Biðtími gangandi styttur

Ef engin umferð er til staðar, logar grænt fyrir umferð ökutækja á Hringbraut og grænt ljós yfir gangbraut samhliða Hringbraut yfir Bræðraborgarstíg. Áður en breytingarnar voru gerðar, kviknaði ekki á grænu gönguljósi yfir Hringbraut um leið og ökutæki úr Bræðraborgarstíg fengu grænt. Gangandi vegfarendur þurftu því að ýta á hnapp til að óska eftir grænu gönguljósi yfir Hringbraut, en slíkt fyrirkomulag hefur lengri biðtíma í för með sér fyrir gangandi vegfarendur.

Reykjavíkurborg hafði fengið kvartanir frá gangandi vegfarendum um biðtíminn á gönguljósunum þarna hafi verið of langur og að þeir áttuðu sig jafnvel ekki á því að ýta þurfi á hnappinn til að fá grænt. Þetta leiddi oftar en ekki til þess að gangandi vegfarendur þveruðu Hringbraut á rauðu gönguljósi, eftir að hafa beðið eftir græna gönguljósinu í nokkurn tíma.

Gult blikkljós til að vekja athygli á breytingunni

Nú kviknar samtímis á grænu fyrir umferð gangandi yfir Hringbraut og umferð ökutækja úr Bræðraborgarstíg, hvort sem ýtt er á hnappinn eða ef ökutæki eru skynjuð á hliðargötu. Til að vekja athygli á þessum breytingum, mun gult blikkljós vera sett upp fyrir ökumenn úr Bræðraborgarstíg.

Akandi vegfarendur eiga alltaf að gæta sérstakrar varúðar þegar ekið er um gatnamót þar sem gangbraut er til staðar. Vegfarendur eiga einnig ávallt að sýna aðgát.