Breytingar á starfsemi Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Reykjavík
Mannlíf Menning og listir
Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík (UMFR) sem verið hefur til húsa í Ráðhúsi Reykjavíkur frá ársbyrjun 2017, verður lögð niður í núverandi mynd frá og með 28. október nk. Í staðinn verður einungis lögð áhersla á upplýsingamiðlun á rafrænu formi.
Með þessu er verið að bregðast við gjörbreyttu umhverfi frá því að Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík var sett á laggirnar árið 1987. Ýmsir aðilar í ferðaþjónustu sinna nú almennri upplýsingagjöf og bókunarþjónustu, ólíkt því sem áður var auk þess sem miðlun upplýsinga og þjónusta er í auknum mæli að færast á netið.
Um leið er markmiðið að ná fram hagræðingu og draga úr fyrirsjáanlegum auknum kostnaði við rekstur UMFR sem óbreytt starfsemi hefði kallað á.
Miðað er við að áfram verði hægt að kaupa Gestakort og Menningarkort í Ráðhúsi Reykjavíkur eins og í Borgartúni 12-14.
Unnið er að nýrri ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg um þessar mundir og í þeirri vegferð verður hlutverk og tilgangur borgarinnar í upplýsingamiðlun til ferðamanna skilgreindur frekar. Leiðarljósið er að skerpa sýn og forgangsraða verkefnum með hliðsjón af því.