Breytingar á reglum um leikskólaþjónustu

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum í dag breytingar á reglum um leikskólaþjónustu í tengslum við að nýjar ungbarnadeildir leikskóla.

Í breytingunum felst að í leikskólum þar sem starfræktar eru ungbarnadeildir sé heimilt að innrita yngri börn en almennt, eða á aldrinum 12-24 mánaða gömul.

Þannig er bætt svohljóðandi málsgrein inn í 6. mgr. í gr.1.1.a. í reglunum: 

„Á tilteknum leikskólum starfrækir Reykjavíkurborg sérstakar ungbarnadeildir.  Börn, sem hefja dvöl á ungbarnadeildum, geta hafið leikskóladvöl allt frá 12-24 mánaða aldri og er miðað við að þau flytjist á  deild fyrir eldri börn innan sama leikskóla um þriggja ára aldur.  Börn innritast á ungbarnadeildir eftir kennitölu, þau elstu fyrst, enda uppfylli þau aldursviðmið deildarinnar.“

Borgarráð samþykkti í mars í fyrra aðgerðir til að bæta þjónustu við foreldra ungra barna á grunni tillagna frá stýrihópi um hvernig brúa mætti bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar. Samþykktin fól í sér að setja á fót sjö ungbarnadeildir við fjóra leikskóla borgarinnar. Í liðnum mánuði samþykkti svo borgarráð að fjölga ungbarnadeildum um sjö þannig að þær verði alls fjórtán og starfræktar í leikskólum í öllum hverfum borgarinnar.

Leikskólar sem starfrækja skilgreindar ungbarnadeildir munu fá heimild  haustið 2018 til að bjóða yngri börnum en 18 mánaða leikskólavist eftir því sem biðlisti og aðstæður leyfa á hverjum stað. Í fyrstu er gert ráð fyrir því að miðað verði við að heimilt verði að bjóða 16 mánaða börnum og eldri inngöngu en með fjölgun leikskólarýma á komandi mánuðum og misserum verður aldur við inntöku barna á ungbarnadeildirnar lækkaður enn frekar.

Eftirfarandi leikskólar reka ungbarnadeildir frá og með næsta hausti: Blásalir, Holt, Sunnuás, Miðborg, Hagaborg, Grandaborg, Sunnufold, Engjaborg, Geislabaugur og Bjartahlíð. Innritun inn á ungbarnadeildir þessara leikskóla hefst 8. maí.