Breyting á deiliskipulagi Hlíðarenda samþykkt

Skipulagsmál

""

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti í dag breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda. Málinu verður vísað til samþykkis borgarráðs.

Helsta breytingin á deiliskipulaginu er sú að íbúðum á Hlíðarendasvæðinu er fjölgað úr 360 í 600. Fjölgunin byggist á því að íbúðirnar verða minni og rými atvinnuhúsnæðis á reitnum minnkar talsvert. Ekki er gert ráð fyrir hækkun húsa í breyttu deiliskipulagi. Hins vegar eykst fjölbreytileiki húshæða, en byggingarnar á svæðinu voru í eldra deiliskipulagi 4-5 hæðir en verða nú  3-5 hæðir.

Einnig er aðgengi bætt fyrir sorpflokkun með djúpgámum sem staðsettir verða í götukössum. Slíkir djúpgámar eru notaðir víðsvegar í bæði nýjum hverfum og eldri í Evrópu.

Leikskóli

Í breyttu deiliskipulagi er einnig gert ráð fyrir leikskóla í forbyggingu knatthúss á svæðinu. Hægt verður að samnýta íþróttavelli og yfirbyggt knatthús til leiks á veturna.

Mikil áhersla er lögð á að byggðin verði fjölbreytt en kvaðir eru settar um uppskiptingu húsreita, mismunandi útlit og fjölbreytileika húshæða. Auk þess eru settar fram kvaðir sem eiga að tryggja aðlaðandi umhverfi. Helmingur íbúða á svæðinu verða tveggja herbergja, 21% 3 herbergja, 15% 4 herbergja og 14% stærri. Á svæðinu verður einnig íbúðahótel fyrir námsmenn.

Rannsóknir og vöktunarhópur vegna vatnabúskapar

Stefnt er að því að framkvæmdir við Hlíðarenda hefjist áður en rannsóknum á vatnafari Vatnsmýrarinnar og tilsvarandi líkangerð er lokið. Því verður spurningum um áhrif framkvæmda á vatnafarið ekki svarað áður en framkvæmdir hefjast. Því eru sérstakar kvaðir settar fram í deiliskipulaginu um vöktun á framkvæmdatíma, svo fylgst verði vel með áhrifum framkvæmda á vatnafar. Með vöktuninni má bregðast við hugsanlegum neikvæðum áhrifum á vatnafar með skjótum hætti. Auk þess fæst vitneskja til fullnaðarákvörðunar fráveitukerfis svo mæta megi markmiðum aðalskipulags með sem bestum hætti. Einnig fæst enn betri vitneskja um vatnafar Vatnsmýrarinnar og viðbrögð kerfisins við breytingum sem framkvæmdir hafa í för með sér.

Framkvæmdir á Hlíðarenda geta því orðið nokkurs konar prófsteinn á næstu skref í uppbyggingu Vatnsmýrarinnar og gefið upplýsingar sem byggja má á við mat á áhrifum framtíðarframkvæmda á vatnafar Vatnsmýrarinnar.

Skipaður verður þverfaglegur samráðshópur sem mun fylgjast með vöktun, m.a. á vatnsflæði, vatnsgæðum og lífríki friðlendis og Tjarnarinnar meðan á framkvæmdum stendur.

Athugasemdir

Sex aðilar gerðu athugasemd við breytingu á deiliskipulagi á auglýsingartíma. Fimm athugasemdir voru gerðar vegna lokun flugbrautar 06-24 en flugbrautina er ekki lengur að finna á skipulagi Reykjavíkurflugvallar sem tók gildi 6.júní 2014 og varðar því ekki efnislega þætti tillögunnar. Einn aðili gerði athugasemd við deiliskipulagstillöguna sem svarað var efnislega.

Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs.