Breiðholtið með flestar hugmyndir – Hverfið mitt 2020

Samgöngur Velferð

""

Hverfið mitt 2020 hugmyndasöfnun er nú haldin níunda árið í röð og hefur gengið vel. Mikil aðsókn hefur verið á vefinn hverfidmitt.is en alls hafa 55.000 manns heimsótt vefinn

Hverfið mitt 2020 hugmyndasöfnun er nú haldin níunda árið í röð og hefur gengið vel. Mikil aðsókn hefur verið á vefinn hverfidmitt.is en alls hafa 55.000 manns heimsótt vefinn og 7.720 hafa skráð sig þar inn og tekið beinan þátt í innsendingu og mótun á 937 hugmyndum. Er það virkilega vel gert hjá borgarbúum! Eins og gefur að skilja er það nokkuð misjafnt eftir hverfum hversu margar hugmyndir hafa komið inn enda eru hverfin misstór.

Nýjustu tölur

Nú þegar nokkrir dagar eru eftir af hugmyndasöfnuninni trónir Breiðholtið á toppnum með flestar hugmyndir en þar hafa verið settar fram 139 hugmyndir. Fast á hæla Breiðholts kemur Háaleiti-Bústaðir með 131 hugmynd og í þriðja sæti er Grafarvogur með 117 hugmyndir. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd koma svo Laugardalur og Árbær með liðlega eitthundrað hugmyndir hvort hverfi.

Hugmyndasöfnunin stendur til 20. janúar næstkomandi og er því vika til stefnu til að senda inn fleiri hugmyndir í hverfum borgarinnar. Reykjavíkurborg hvetur íbúa til að láta ekki hugmyndir liggja eftir heldur nýta tækifærið til að koma með góðar hugmyndir sem bæta hverfin í borginni. Það hefur sýnt sig að þegar borgarbúar fá að hafa áhrif á nærumhverfi sitt verða hverfin betri. Þegar litið er um öxl þá hafa ótal skemmtilegar hugmyndir orðið að veruleika í hverfunum sem hafa komið frá íbúunum sjálfum. Íbúarnir hafa því svo sannarlega haft áhrif til hins betra í hverfunum í Reykjavík. 

Sem dæmi má nefna:

Árbær - kaldur pottur í Árbæjarlaug.

Breiðholt - nýtt hreysti- og klifursvæði nálægt Breiðholtslaug.

Grafarholt og Úlfarsárdalur – nýr mini-golfvöllur í Leirdal.

Grafarvogur - ærslabelgur við Gufunesbæ.

Háaleiti og Bústaðir - nýtt útiæfingasvæði við Víkingsheimilið.

Hlíðar - klifursteinn á Klambratúni.

Kjalarnesi - aparóla í Grundarhverfi.

Laugardalinn -  frisbígolfvöllur.

Miðborgin -  bekkjum fjölgað og bætt við gróður í Hljómskálagarðinum.

Vesturbænum - há róla við Ægissíðu.

Þetta er bara brot af þeim hugmyndum sem búið er að framkvæma. Hugmyndirnar í ár eiga ekki að snúast um að laga eitthvað gamalt heldur skapa eitthvað nýtt. Hvaða hugmynd vilt þú að verði að veruleika í þínu hverfi í þetta sinn?

Sendu inn þína hugmynd á Hverfidmitt.is, segðu nágrönnum þínum frá hugmyndinni og deildu henni með íbúum hverfisins. Þín hugmynd gæti verið kosin og orðið að veruleika. Þú hefur til miðnættis þann 20. janúar næstkomandi. 

Helstu tímasetningar:

· Hugmyndasöfnun -  4. nóvember 2020 til  20. janúar 2021

· Mat hugmynda, frumhönnun og undirbúningur kosninga  -  janúar til september 2021

· Íbúakosningar um framkvæmdir  -  september til október 2021

· Framkvæmd kosinna hugmynda  -  apríl til september 2022

Hugsum stórt, verum snjöll og tökum þátt. Sendu inn þína hugmynd www.hverfidmitt.is