Breiðholtið er nýja Brooklyn
Breiðholtið er í sigtinu þessa vikuna og viðmælandi að þessu sinni er Edda Kristín Reynis en hún flutti í Breiðholtið 1971 þá sjö ára gömul. Það voru foreldrar hennar Jósef S. Reynis, arkitekt og Ásta Þórarinsdóttir húsmóðir, sem byggðu hús við Hólastekk. Pabbi Eddu teiknaði húsið en hann teiknaði m.a. Grensáskirkju, Nesjavallavirkjun og Kópavogshæli. Hann teiknaði einnig blokkina sem þau fluttu úr, á Laugarnesvegi 100.
Fullt af krökkum
Fjölskyldan flutti í Hólastekk sumarið 1971. „Ég gleymi þessu aldrei því við systurnar fórum í sveitina og þegar við komum aftur heim síðla sumars voru pabbi og mamma búin að flytja í nýja húsið. Við fengum gott herbergi með fataskáp og herbergið var með fallegu gulu sólblómaveggfóðri. Og kojunni okkar var búið að skipta í tvö rúm. Það var skrítið að vera komin í einbýli og úti við var allt fullt að krökkum. Þetta var yndislegt,“ segir Edda.
Edda talar um hvað það var skemmtilegt að vera barn í hverfinu. „Það var alltaf leikið úti og oftar en ekki í stórum hópum. Við fórum m.a. í ein króna og fallin spýta og svo lékum í Indjánagili í Elliðaárdal. Það voru ævintýri við hvert fótmál en alls staðar voru malarvegir og lítil sem engin bílaumferð. Breiðholtið var eins og lítið þorp fjarri miðborginni og margir skildu ekkert hvað fólk var að flytja hingað upp eftir,“ segir Edda og hlær.
Haustið 1971 byrjar Edda í 2. bekk í Breiðholtsskóla en skólinn sjálfur opnaði glænýr 1969. Á þessum fyrstu áratugum var skólinn fjór-, þrí- og tvísetinn í árgöngum og þrengsli oft mikil. „Ég byrjaði í E-bekk hjá Kristjáni Jóhannssyni en þegar hann komst að því að ég var fluglæs var ég færð samdægurs í A-bekk hjá Helgu Magnúsdóttur. Í þessum bekk átti ég eftir að vera út 8. bekk og þarna var ég samferða stelpum, sem eru enn bestu vinir mínir. Við erum fimm í æskusaumó og hittumst iðulega en svo hittumst við allar stelpurnar í bekknum líka. Þeim finnst alltaf gaman að koma í Breiðholtið þegar ég er gestgjafi og mikil nostalgía í því að koma til mín. Það er margt að minnast og við eigum mjög góðar stundir saman. Engin náin vinkona býr í Breiðholti en það breytir því ekki að hér er Eva bekkjarsystir mín og fullt af kunnuglegum andlitum. Fullorðið fólk sem ég man eftir sem börnum í hverfinu.“
Á unglingsárunum sóttu unglingarnir í árgangi Eddu meira í Bústaðahverfið en Efra-Breiðholt. „Við höfðum vanist því að fara í félagsmiðstöðina í Bústöðum frekar en Fellahelli, sem þá var nýopnaður. Við kynntumst líka jafnöldrum okkar í Bústaðahverfi í strætó nr. 11. Okkur fannst við eiga meira sameiginlegt með þeim en krökkunum úr Efra-Breiðholti. Það var því mikið stökk þegar ákveðið var að allir unglingar í Breiðholti ættu að ljúka skólagöngu í Hólabrekkuskóla. Þetta voru að mig minnir 13 bekkir, unglingar úr Neðra-, Efra-Breiðholti og Seljahverfi. Þvílíkur suðupottur sem þetta var og allir sammála um að þetta verði ekki gert aftur. Okkur var líka öllum tvístrað svo enginn var lengur með sömu bekkjarfélaga og áður. Það var líka mikil spenna og órói meðal nemenda. En þrátt fyrir það hugsa ég oft um að það væri mjög gaman að halda bekkjarmót þessa árgangs í Hólabrekkuskóla, sem samanstóð af öllum sem fæddir voru 1964 og voru búsettir í Breiðholti. Spurningin er bara hvar ætti að finna nógu stórt húsnæði.“
Minningar í myndum
Flogið úr hreiðrinu
Edda lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum og þaðan lá leiðin í Kennaraháskóla Íslands og búseta í öðrum hverfum borgarinnar, helst miðsvæðis. Að því loknu lá leið Eddu til Noregs í framhaldsnám í sérkennslufræðum. Þegar heim var komið með maka og barn lá beinast við að hreiðra um sig í litlu kjallaraíbúðinni í Hólastekk á meðan þau fundu sér húsnæði við hæfi.
Við lát móður sinnar árið 2014 flutti Edda ásamt fjölskyldu aftur heim í Hólastekk til að hugsa um pabba sinn. „Ég gerði þetta fúslega og með gleði því ég er foreldrum mínum þakklát fyrir örugga og hamingjuríka æsku.“ Í samráði við föður sinn og systkini keypti hún æskuheimilið áður en pabbi hennar féll frá árið 2018. Edda starfaði í áratugi sem kennari og sérkennari en þegar ferðamennskan tók við sér eftir hrun fór hún að vinna sem flugfreyja og er það hennar aðalstarf í dag.
Minningar í myndum
Æskuheimilið er "trend"
Það er mikil upplifun að heimsækja Eddu en það er eins og tíminn hafi staðið í stað. Hún hefur varðveitt upprunalegar innréttingar hússins í eldhúsi, stofu og forstofu. Mesta athygli vekur glerverk í milliveggjum forstofu og stofu, flísalagður veggur í anddyri og eldhúsinnréttingin með fölbleikum skáphurðum. „Það eykur enn á nostalgíuna þegar við gömlu vinkonurnar hittumst að æskuminningarnar verða svo ljóslifandi hérna heima þar sem eiginlega allt er eins og það var,“ segir Edda.
Hún er mjög ánægð að búa í Breiðholti og þó að hún sakni Breiðholtskjörs, eins og það var þegar það var upp á sitt besta, segir hún stutt í alla þjónustu. Hún hlakkar til þess að Mjóddin fái andlitslyftingu en til stendur að laga verslunarkjarnann. „Breiðholtið sem áður var mjög afskekkt er núna mjög miðsvæðis. Hér er stutt til allra átta og góðar samgöngur frá Mjóddinni. Við höfum rætt það vinkonurnar að Breiðholtið fékk uppreisn æru þegar Jón Gnarr var borgarstjóri. Hann byrjaði á því að lyfta hverfinu upp. Sjálfri finnst mér ógeðslega kúl að búa í Breiðholti.“
Hún er alfarið á móti því að reist verði risagróðurhús við dalinn og segir að það eigi að varðveita óspillt umhverfi Elliðaárdalsins. „Ég hef pælt mikið í þessu bæði hér og á ferðalögum mínum. Mér þykir sérstaklega gaman að koma til New York og veistu að til stóð að breyta Central Park í bílastæði? Við verðum að varðveita græn svæði. Mér er líka annt um það að hugað verði að brekkunni, gróðurbeltinu milli Efra- og Neðra Breiðholts. Enginn sá fyrir að þarna myndu trén þrífast svona vel og því orðið aðkallandi að grisja svæðið. Það gæti orðið til þess að fólk fengi aftur útsýnið sem það hafði áður.“
Edda segir að nú sé sonur hennar búinn að koma sér fyrir í litlu íbúðinni á jarðhæð hússins. „Hann er orðinn mikill Breiðhyltingur og sér það fyrir sér að taka við húsinu í minn stað. Breiðholtið er algjör perla og mér þykir vænna um það með hverju árinu,“ segir Edda Kristín Reynis að lokum.
#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace