Brautryðjendaverkefni í þágu barna ýtt úr vör í dag

Hópurinn sem var viðstaddur athöfnina í dag.

Miklar væntingar eru bundnar við verkefnið Betri borg fyrir börn sem var formlega ýtt úr vör í dag við hátíðlega athöfn. Ætlunin er að bæta þjónustu, færa hana nær notendum og auðvelda aðgengi að henni, meðal annars með stafrænum lausnum, nýrri nálgun í sérfræðiþjónustu og stóraukinni samvinnu.

Betri borg fyrir börn

Fyrr í dag undirrituðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, samstarfssamning um verkefnið „Betri borg fyrir börn í Reykjavík“. Dagurinn í dag markar því formlegt upphaf á verkefninu sem er að fara af stað í öllum hverfum borgarinnar. Verkefnið miðar að aukinni nærþjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra, meðal annars með því að færa hana út í skólaumhverfið. Ný velferðar-, skóla- og frístundaþjónusta mun einfalda aðgengi og bæta þar með þjónustu við börn og fjölskyldur í Reykjavík sem þurfa á aðstoð sérfræðinga að halda.

Innleiðing á verkefninu um alla Reykjavíkurborg hófst 3. janúar síðastliðinn. Borginni hefur verið skipt í fjögur þjónustuhverfi þar sem áhersla er lögð á að þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs:

o   Breiðholt

o   Vesturbær, Miðborg og Hlíðar

o   Laugardalur og Háaleiti

o   Grafarvogur, Kjalarnes, Árbær og Grafarholt

Með þessum breytingum er þjónusta í auknum mæli færð í skólaumhverfi barna og ungmenna með aðferð snemmtæks stuðnings. Þannig styður breytingin við það fyrirkomulag að greining sé ekki nauðsynleg forsenda stuðnings og auðveldar skjót viðbrögð. Á sama tíma er aukinn stuðningur við starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og stjórnun stofnana færð nær vettvangi.

Ný nálgun á þjónustu

Í dag fór jafnframt fram kynning á verkefninu „þjónustuumbreyting Betri borgar fyrir börn“ sem unnin er í samstarfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies. Stafræn vegferð Reykjavíkurborgar hlaut nýlega alþjóðlega viðurkenningu og fjárhagsstuðning frá Bloomberg Philanthropies. Borgin er á meðal sex borga í þriggja ára nýsköpunarverkefni sem ber nafnið „Build back better“ og er styrknum ætlað að hraða stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar.

Sagt var frá störfum nýsköpunarteymisins, svokallaðs i-teymis, sem kemur að stafrænum lausnum BBB-verkefnisins. Innan velferðar-, skóla- og frístundaþjónustunnar í Reykjavík starfa fjölmargir sérfræðingar, þeirra á meðal talmeinafræðingar, sálfræðingar, hegðunarráðgjafar, iðjuþjálfar, kennsluráðgjafar og félagsráðgjafar. Verkefni i-teymisins verður að bæta rafrænt aðgengi að þjónustunni svo og vinnuumhverfi sérfræðinganna. Þannig verður umsóknarferli umbreytt í stafrænt form, verkferlar einfaldaðir og upplýsingaflæði milli ólíkra stofnana og fagaðila stórbætt.

I-teymið beitir skapandi aðferðum svo nýta megi lausnir til að bæta þjónustu, m.a. með því að kafa dýpra í notendarannsóknir, upplýsa borgarbúa um framgang verkefnisins, skapa efni á listrænan hátt og margt fleira. Um nýja nálgun er að ræða þegar kemur að umbreytingaverkefnum innan borgarinnar.

Nýsköpunarteymið, sem samanstendur meðal annars af þjónustuhönnuði, listakonu, félagsfræðingi og gagnasérfræðingi, kynnti borgarstjóra og starfsfólki Reykjavíkurborgar vinnuaðferðir sínar í morgun. Sérstaka hrifningu vakti myndræn framsetning verkefnisins á vegg í vinnurými hópsins sem unnin er af listakonunni Emblu Vigfúsdóttur.

Mikil samvinna og breytt vinnubrögð

Sterkt einkenni verkefnisins Betri borg fyrir börn er að það krefst mikillar samvinnu milli ólíkra sviða á borginni og breyttra vinnubragða. Í ræðu sinni í dag þakkaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri starfsfólki borgarinnar sérstaklega fyrir og hvatti það til dáða í umbreytingunni: „Mig langar að þakka öllum sem hafa komið að því að þessu brautryðjendaverkefni, því það er alls ekki létt verk að ryðja brautina og brjóta múra með innleiðingu nýrra vinnubragða þvert á svið. Þetta er merkilegur dagur – formlegt upphaf á mikilvægum skipulagsbreytingum og kynning á stóru verkefni í stafrænni vegferð borgarinnar, allt í þeim tilgangi að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur í borginni,“ sagði hann meðal annars og lauk ræðu sinni með orðunum: „Til hamingju Reykjavík með Betri borg fyrir börn!“