Börn móta menntastefnu | Reykjavíkurborg

Börn móta menntastefnu

mánudagur, 13. nóvember 2017

Hátt í sjötíu nemendur í grunnskólum Reykjavíkur komu saman í morgun til að leggja sitt af mörkum til nýrrar menntastefnu sem nú er í mótun.

 • Spjallað um fram komnar hugmyndir
  Spjallað um fram komnar hugmyndir
 • Unnið á borðum
  Börnin skrifuðu niður hugmyndir sínar að aðgerðum undir fimm megináherslum menntastefnunnar
 • Rætt um miða
  Allar hugmyndir voru settar niður á miða og lagðar fram af hverjum og einum
 • Hugmyndir skrifaðar niður
  Nemendur skrifuðu niður hugmyndir sínar á miða og lögðu þá fram í umræðu
 • Niðurstöður fundarins skrifaðar niður
  Elstu nemendurnir sáu um fundarstjórn á hverju borði og tóku saman helstu niðurstöður.

Tveir nemendur úr hverjum grunnskóla borgarinnar mættu til fundarins sem haldinn var í Laugalækjarskóla. Þar voru myndaðir hópar eldri og yngri nemenda og tóku þeir elstu að sér umræðustjórnun. 

Hóparnir ræddu þær megináherslur sem komu út úr fyrri hluta samráðs um menntastefnuna í vor þar sem leikskóla- og grunnskólabörn voru einnig með í ráðum en þar varð að niðurstöðu að leggja bæri áherslu á félagsfærni, sjálfseflingu, sköpun, læsi og heilbrigði sem meginþætti í skóla- og frístundastarfinu. 

Verkefni fundarins  í morgun var að leggja fram hugmyndir sínar að því til hvaða aðgerða skuli gripið til að ná fram þessum markmiðum. Fjörugar umræður sköpuðust á borðunum og miðar flugu á milli með hugmyndum hvers og eins. Verkefnastjórn um menntastefnuna mun vinna úr hugmyndum barnanna eins og öðrum samráðsfundum um stefnumótunina. 

Samráð um menntastefnu Reykjavíkurborgar nær einnig til foreldra, starfsfólks skóla og frístundaheimila, skólaþjónustu og skólahljómsveita og stendur það allan nóvembermánuð. Þá er hægt að taka þátt í opnu samráði um menntastefnuna á Betri Reykjavík.