Borgin setur sér málstefnu | Reykjavíkurborg

Borgin setur sér málstefnu

þriðjudagur, 3. október 2017

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag heildstæða málstefnu fyrir Reykjavíkurborg  í samræmi við 130. gr. sveitarstjórnarlaga. Stefnan nær til birtingar texta og annars efnis, málnotkunar, notkunar íslensks punktaleturs og auðlesins efnis og réttar íbúa af erlendum uppruna til samskipta við borgarstofnanir á móðurmáli sínu. 

  • Íslensk handrit
    Íslensk handrit - ljósmyndari Roman Gerasynenko

Meðal þess sem kveðið er á um í stefnunni er að allar upplýsingar um grunnþjónustu borgarinnar, útgefið efni, fundargerðir og önnur gögn, skuli vera á vandaðri, skýrri og auðskiljanlegri íslensku. Íslenska skal vera meginsamskiptamálið í þjónustu og vinnuumhverfi starfsstaða og það á einnig að gilda um viðmót í tölvum, rafræna þjónustu og helsta hugbúnað. Þá segir í stefnunni að starfsfólk, sem er í beinum samskiptum við borgarbúa,  skuli hafa grundvallarfærni í íslensku, og endurgjaldslaus túlkaþjónusta skuli standa þeim til boða sem ekki geti skilið eða tjáð sig á íslensku. Starfsfólk borgarinnar, með annað móðurmál en íslensku, skal eiga kost á hagnýtum íslenskunámskeiðum og einnig skulu símenntunarnámskeið í íslensku vera í boði fyrir alla starfsmenn.

Í stefnunni er einnig kveðið á um að þeir sem þurfa eigi að geta fengið grunnupplýsingar um þjónustu og aðra starfsemi á íslensku táknmáli, svo sem með þjónustu táknmálstúlks, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls 13. gr.

Líf Magneudóttir borgarfulltrúi fylgdi málstefnunni úr hlaði á fundi borgarstjórnar í dag og sagði hana gríðarlega þarft skref, ekki síst í ljósi þess að sótt er að íslenskunni úr öllum áttum. „Það á ekki að gefa afslátt af kröfum sem við gerum til hins opinbera þegar kemur að íslensku og framsetningu alls efnis, ritmáls og talmáls, en líka þegar við miðlum upplýsingum til borgarbúa, hvort sem það er á íslensku eða táknmáli, prentað eða með punktaletri eða í samskiptum við borgarbúa sem hafa önnur tungumál en íslensku að móðurmáli.“ 

Borgarstjóri mun skipa málnefnd sem falið verður að innleiða málstefnuna, tryggja að henni sé framfylgt og endurskoða hana reglulega. 

Sjá málstefnuna í heild sinni.